152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[13:02]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni um að það er erfitt að merkja einhvers konar, hvað á maður að kalla það, atvinnustefnu í þessum fjárlögum. Í því myndu m.a. finnast svona hvatar. En ég held að á tímum sem þessum, það er verið að tala um 21. öldina, hvernig við getum mótað framtíðina, hefði t.d. verið áhugavert að sjá hvernig ríkisstjórnin myndi vilja beita því afli sem hún hefur til þess að halda utan um ákveðin verkefni. Þá er ég ekki að tala um að ríkið eigi að reka allt, heldur að við myndum sjá að ríkið tæki í auknum mæli skref, til að mynda í fjármögnun á stórum verkefnum sem væru ekki bara stóriðja heldur græn orka í þessu samhengi eða græn verkefni, til að fá einkaaðila inn, af því að við getum ekki ætlast til þess að ríkið geri allt. En það er ekki einu sinni að sjá svoleiðis verkefni á þessu borði, það eru engar stórhuga breytingar boðaðar og þess sakna ég.