152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[13:07]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek fram að þessari framsetningu var ekki beint að bændum heldur þeim sem veita styrkina, þeim sem móta umhverfið sem við störfum hér í og þeirri staðreynd að ríkið getur líka verið leiðandi í að eiga samtal við landbúnaðinn um hvernig við nýtum opinbert fé, hvernig við ræktum landið. Ég hef fullkominn skilning á því að það eru lifnaðarhættir í landinu, fólk hefur tekjur af ákveðnu fyrirkomulagi. En ef hugmyndin er sú að við séum að nota opinbert fé til að styðja við ákveðna geira hljótum við að gera kröfu til þess að það sé líka nýtt til þess að færa þessa geira inn í framtíðina og a.m.k. að gefa fólki valkost til að stunda annars konar landbúnaðarstörf.