152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[13:09]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Já, ég hef miklar áhyggjur af stöðu sveitarfélaga. Þar er veitt ein viðkvæmasta þjónustan í landinu og það er verið að breyta þeim yfir í svona, hvað á ég segja, rekstrarhliðarskúffu, rekstrardeild ríkissjóðs. Það er verið að setja þangað yfir verkefni sem ríkissjóður treystir sér ekki til að sinna og tekjur fylgja ekki. Það liggur fyrir að endurskoða þarf tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það hefur í gegnum tíðina allt of mikið verið flutt þarna á milli til að firra ríkissjóð ábyrgð og tekjur hafa ekki flust með. Við sjáum það í málaflokki fatlaðra þar sem vantar 9 milljarða inn. Þetta bitnar á fólkinu í landinu. Þannig að fyrsta skrefið er að taka til alvarlegrar umræðu tekjuskiptingu sveitarfélaga og ríkissjóðs og hætta þessu stappi á milli þessara stjórnsýslustiga af því að staðreyndin er sú að almenningur gerir ekki greinarmun á hvort hann fái þjónustu frá sveitarfélaginu eða ríkinu. Fólk vill bara að hlutirnir virki og við verðum að starfa betur sem ein heild.