152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[13:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil sérstaklega taka undir síðustu orðin: Við eigum að starfa sem ein heild. Fólkið okkar þarna úti skilgreinir ekki hver það er sem veitir þjónustuna; ríkið, sveitarfélögin eða jafnvel einkaaðilar. Það þarf bara að fá þjónustuna. Það er þannig sem við þurfum að ýta undir allar þær tillögur sem virkja það að þjónustan við fólkið batni svo að hún verði skilvirk, gegnsæ og náttúrlega líka einstaklingsmiðuð hverju sinni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Ég tek undir það að ég sakna þess gríðarlega að sjá aðgerðir, bæði í stjórnarsáttmálanum og í fjárlagafrumvarpinu. Það eru alls konar yfirlýsingar um ákveðin hlutverk en það eru engar aðgerðir eða tillögur, hvorki í stjórnarsáttmála né í fjárlagafrumvarpi. Það beinist m.a. að því sem tengist húsnæðismarkaðnum sem hv. þingmaður hefur oftar en ekki komið inn á. Ég sakna þess að sjá tillögur frá ríkisstjórninni til að auka traust launafólks á húsnæðismarkaði, m.a. til þess að ýta undir það að ungt og efnaminna fólk geti varanlega, (Forseti hringir.) ekki bara í einhverju átaki heldur varanlega, fest (Forseti hringir.) kaup á sínu eigin húsnæði. Hvernig sér hv. þingmaður það geta gerst?