152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[13:12]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að staðan á húsnæðismarkaði er alvarleg fyrir flesta. Það eru margir sem telja að þetta snúist bara um þá sem ekki eru komnir inn á markaðinn, en við sjáum að stór hluti af húsnæðisverðshækkunum lekur yfir í verðbólgu. Hún lendir á öllum. Þetta skapar efnahagslegan óstöðugleika alls staðar. Við verðum að hætta að segja „við“ og „þið“ þegar við tölum um þennan málaflokk. Það eru ákveðnir hópar sem nýta sér úrræði ríkissjóðs eða sveitarfélaganna. En ég held að það skipti einmitt mjög miklu máli að fólk geri sér grein fyrir því að þessi úrræði eru til þess fallin að aðstoða ákveðna einstaklinga við að komast í öruggt húsaskjól, en að sama skapi skapar þetta ákveðið akkeri sem heldur áfram að ýta fasteignaverðshækkunum upp allan stigann, óháð því hvort fólk er að leigja eða kaupa. Þannig að ég tek undir með hv. þingmanni að ég hefði viljað sjá meira þarna, til að mynda í almenna íbúðakerfinu. Þær leiguíbúðir munu líka draga úr hækkunum á kaupmarkaðnum og það er það sem fólk verður að skilja. En það hefur ekki verið vilji til að útskýra þetta.