152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[14:05]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir afbragðsræðu hér rétt áðan. Mig langaði aðeins að bregðast við af því að hún hitti mig svolítið í hjartastað þegar hún nefndi að þegar við erum að tala um ríkisreksturinn séum við stundum í því að henda krónunni og spara aurinn. Hún kom ágætlega inn á það áðan og nefndi það í samhengi við mál sem ég nefndi í gær í umræðum um stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra. Er það ekki þannig, ef við horfum til að mynda á málefni SÁÁ þar sem 700 manns eru á biðlista, þar sem ríkið veitir ekki fjármagn sem dugir fyrir þeirri starfsemi til að hægt sé að tala um að það sé gert með mannsæmandi hætti, að nákvæmlega þar, með öllum þeim afleiðingum sem fylgja því, eyðum við svo sannarlega of litlum peningum, sem við fáum síðan í bakið síðar í formi aukinna útgjalda?