152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[14:06]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir andsvarið. Jú, þetta er hárrétt. Það er það illa búið að þessu fólki. Þrátt fyrir að sumir séu það lánsamir að komast í forgang og fá læknishjálp er það meira að segja þannig að þegar einstaklingurinn kemur aftur út í samfélagið er mjög lítið hægt að gera til að taka utan um alla, því miður. Oft rata þessir einstaklingar því aftur í röðina til að leita að hjálp. Við gerum þetta ítrekað. Þarna erum við að spara aurinn, við erum að fleygja krónunni og við komum alveg rosalega illa fram við þennan þjóðfélagshóp sem er alveg risastórt samansafn af flottu fólki. Það er risamannauður sem við eigum að virkja. Ef hann fengi að koma og taka þátt í samfélaginu myndi hann skapa okkur alveg ótrúlega mikið meira af verðmætum en þeir vilja raunverulega vera láta að það kosti okkur. Fyrst og síðast, hv. þingmaður, á að setja málefni fíkla og alkóhólista beinustu leið undir heilbrigðisráðherra, beinustu leið inn í kerfið og viðurkenna sem heilbrigðisvanda.