152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[14:12]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er auðvitað þannig að tvennt af því sem við ræðum hér í dag — eiginlega allt en tvennt sem hv. þingmaður tók fram í ræðu sinni — er vandi sem er búinn til af mönnum, er af manna völdum. Fátækt er annað, loftslagsbreytingar eru hitt. Ég hlustaði þegar þingmaðurinn spyrti það tvennt saman. Ég skil hvað hv. þingmaður er að segja, forseti, en ég held að við verðum að horfast í augu við það í okkar ríka samfélagi að við þurfum að gera hvort tveggja. Við þurfum að útrýma fátækt og við þurfum líka að berjast við loftslagsbreytingar. Mig langar bara að spyrja hv. þingmann, forseti, hvort ég hafi skilið hana rétt, að eitt útiloki annað í þeim efnum.