152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[14:13]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Nei, ég sagði einfaldlega að ef við hefðum efni á að setja 13 milljarða í loftslagsvána, sem er ekki orðin viðvarandi hér, getum við tvöfaldað þá upphæð í „fólkið fyrst“, það var það sem ég sagði. Ekki það að ég sé að afneita því sem er að gerast á jörðinni okkar akkúrat núna, það er af og frá. En þegar við tölum um forgangsröðun fjármuna hjá Flokki fólksins þá segjum við: Fólkið fyrst, svo allt hitt. Við segjum líka: Þeir sem eru aflögufærir, eins og bankarnir, útgerðin og aðrir slíkir — sækið fjármunina þangað. Ef þið getið sett 13 milljarða í loftslagsvána getið þið sett 26 milljarða í fólkið fyrst. En við skulum umfram allt útrýma fátækt, það er boðskapur Flokks fólksins.