152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:04]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir býsna góða yfirferð yfir fjárlögin. Ég veit að hann er talnaglöggur mjög og ég þakka honum fyrir að vera lúsiðinn í störfum sínum fyrir almenning af því að við erum jú að tala um fjármuni almennings þegar við fjöllum um fjárlög en ekki fjármuni ráðherra. Vegna þess hversu glöggur hv. þingmaður er langar mig aðeins að spyrja hvort hann muni hvaða fjárhæð er, til viðbótar við fyrri áætlanir, í fjárlögum næsta árs til geðheilbrigðismála, eða hvort um sé að ræða umtalsverða fjárhæð. Getur þingmaðurinn upplýst okkur um það? Við höfum sem betur fer brugðist við á ýmiss konar hátt vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og sem dæmi settum við um 100 milljarða í ferðaþjónustuna, sem var algjörlega nauðsynlegt til að bregðast við. En ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti upplýst um hvaða stórsókn við munum sjá í fjárlögunum í málaflokkinn geðheilbrigðismál á komandi ári.