152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er 1. umr. og stuttur tími síðan við fengum fjárlagafrumvarpið í hendur. Eftir að hafa lesið aðeins í gegnum það man ég að einhvern veginn átti að setja aukafjármagn í geðheilbrigðismál, innan heilsugæslunnar held ég það hafi verið. En út af því hversu ógagnsæ fjárlögin eru þá veit ég ekki hvort það er bara endurtekning á sömu upphæðum og voru í fyrra. Það er dálítið mikið um að verið sé að fjalla um sömu breytingar, verið að endurtaka tölur sem við höfum áður séð eins og það sé aðeins verið að villa um fyrir okkur, hvort það séu nýjar tölur eða ekki. Ég hef því ekki getað sundurliðað þetta nægilega vel til að átta mig á því hvort geðheilbrigðisáætlunin er fullfjármögnuð eða ekki. Svarið er bara ekkert flóknara en það.

Það er yfirferð á bls. 127 og 128 og í fljótu bragði sé ég ekki nákvæmar tölur þar. Þar stendur bara: Auk þess hefur verið lögð áhersla á stóraukna geðheilbrigðisþjónustu. Þetta eru náttúrlega fjárlög fjármálaráðherra. Ég hefði áhuga á að þetta væri betur sundurliðað og útskýrt. Í staðinn fyrir að hafa bara svona textaflæði væri það aðgengilegra á töfluformi en líka á tölvutæku formi. Það er ekkert rosalega aðgengilegt, það er oft hægt að fara í einhverja svona Microsoft BI-lausn á vef Stjórnarráðsins eða fjármálaráðuneytisins og kafa í ákveðin atriði, en það vantar sundurliðun á því sem er stefna stjórnvalda, því sem er viðbót vegna hennar. Er þetta kerfislægur vöxtur, er einhver uppreiknaður vöxtur eða svoleiðis? Er þetta vegna verkefna sem stefna stjórnvalda leggur til inn í fjárlögin eða er þetta bara sjálfkrafa?