152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:11]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar. Ég held að það sé óhætt að segja að stórt sé spurt og það er allt í lagi. Þetta er mikilvægur málaflokkur sem mikilvægt er að ræða og ég held að við þurfum bara að horfast í augu við það að menn eru að vinna þetta eftir bestu getu miðað við þær upplýsingar sem eru til staðar. En það er verkefni okkar eins og alls heimsins að ná mjög metnaðarfullum markmiðum. Það er vegferð sem er hafin og það kæmi verulega á óvart ef við sæjum ekki einhverjar breytingar á leiðinni. Það kæmi mér verulega á óvart ef búið væri að sjá fyrir alveg nákvæmlega hvernig þau mál munu útleggjast. Ég held að langbest sé að nálgast verkefnið af einlægni og heiðarleika hvað það varðar að við erum að fara í vegferð sem kallar á samstarf miklu fleiri aðila en eru hér inni, ég tala nú ekki um innan ríkisstjórnar, því að það þurfa allir, efnahagslífið, hagaðilar og almenningur, að koma að því. Eins og staðan er núna eru margir óvissuþættir í þessu sem við erum að reyna að vinna úr eins hratt og mögulegt er. En við gerum það ekki ein. Jafn mikið og ég kann að meta það þegar hv. þingmaður kemur hér og spyr út í einstaka þætti fjárlaga og útfærslu á þeim — það er gott og hv. þingmaður veitir gott aðhald eins og hann á að gera — þá er ég bara einlægur í því að svona er staðan og við þurfum að horfast í augu við það. Þýðir það að menn hafi ekki vandað til verka þegar kemur að áætlunum og öðru slíku? Jú, jú, menn hafa gert það en við vitum hins vegar að það er ólíklegt að ekki verði neinar breytingar á leiðinni.