152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:15]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir annað innlegg hans og hann fór inn á ákveðna þætti eins og t.d. Carbfix, hvað það myndi muna miklu. Ég veit að hv. þingmaður þekkir þennan málaflokk vel. Hann gæti farið yfir og nefnt fjölmargt annað. Aðalatriðið er þetta: Við erum hér með fjármögnun til að fara í þetta verkefni. Um það er ekki deilt. En hv. þingmaður er í raun að spyrja mjög stórra spurninga og vill fá mjög skýr svör og það sem ég er að vekja athygli á, sem ég veit að hv. þingmaður veit mjög vel, er að það væri mjög óábyrgt af þeim sem hér stendur að veita nákvæmt svar um þessa stóru áætlun sem við vitum að í eru óvissuþættir. Hv. þingmaður nefndi nokkur dæmi en ég veit að hann gæti nefnt miklu fleiri, hann gæti haldið hér langa ræðu um alla óvissuþættina í því. Aðalatriðið er þetta: Við erum hér með fjármagn til að halda áfram því sem hafið er og mikilvægt að það gangi vel. (Forseti hringir.) En það mun ekki ganga vel nema allir leggist á eitt.