152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:18]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég greindi ekki, það kann að vera að ég hafi misst af því, sérstaka spurningu til mín en ákvað að koma í andsvar ef þær kynnu að verða einhverjar. Ég geri mér grein fyrir því að ég mun ekki ná að svara þeim þegar hann byrjar en ég saknaði þess alveg ógurlega að vera hér í samtali við hv. þingmann þannig að ég ákvað að mæta.

Umræðan, það sem ég hef náð af henni, er mjög góð og gagnleg. Ég veit að vinnan í hv. fjárlaganefnd á eftir að gagnast okkur öllum. Ég vil enn einu sinni taka undir með hv. þingmanni, sem fram kom í ræðu hans, og ég held að við getum öll verið sammála um, að þegar við fáum fjárlagafrumvarpið hér fyrst í hendur þá er umfangið mikið, við áttum okkur á því í heildarsamhengi fjárhæðanna. Málaflokkarnir eru fjölmargir, yfir 100 á 35 málefnasviðum, þannig að þetta er mikið efni og snúið að pakka þessu saman þannig að allar upplýsingar komi fram, þannig að ritið njóti sannmælis. Það eru auðvitað mjög góðir og gagnlegir kaflar þarna. En gagnsæið er eitthvað sem bíður hv. fjárlaganefndar milli umræðna að draga fram í samtali við ráðuneytin. Ég get alveg viðurkennt hér og nú að ég er bara á svipuðum stað og þeir sem eru að taka þátt í umræðunni hér, sem nýskipaður hæstv. heilbrigðisráðherra, að fara í gegnum þetta. En ef það eru einhverjar spurningar sem hv. þingmaður vill koma á framfæri er sjálfsagt að reyna að bregðast við því.