152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Þá gefur hæstv. ráðherra sér heila mínútu til að svara þeim spurningum sem ég hef tvær mínútur til þess að spyrja. Nei nei, allt í lagi, ég hlakka til að fá hæstv. ráðherra í fjárlaganefnd, hinum megin við borðið, til að svara spurningum. Ég veit alveg hvaða spurningum hann á von á. Hann veit líka á hvers konar formi við væntum svara þannig að það verður rosalega gaman að sjá hvernig það þróast.

Það er kannski ein spurning sem hæstv. ráðherra nær að svara á þessari mínútu: Kynntir eru 16 milljarðar í aukningu í heilbrigðiskerfinu, í hans málaflokki. Ég kallaði eftir félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, hann gat því miður ekki verið hér þannig að ég kíki í aðra tíu mínútna ræðu á morgun til að klára það sem hann var að gera; ég fjallaði um skerðingar ellilífeyris úr hans málaflokki, þannig að hann kemur og svarar því hér seinna. En þessir 16 milljarðar, hvað af því er í raun og veru vegna stefnumótandi ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að leggja fram aukaframlag til heilbrigðiskerfisins? Rosalega mikið af þessu er bara hækkun á lyfjakostnaði, það er raunaukning og ýmislegt svoleiðis sem maður myndi ekki segja að teldist til aukins framlags ríkisstjórnarinnar. Þó að ríkisstjórnin væri á klósettinu í heilt ár myndi framlag til heilbrigðismála samt hækka, þó að ríkisstjórnin gerði ekki neitt. Hvað af þessum 16 milljörðum sem um ræðir gæti ráðherra sagt að sé vissulega vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að auka framlag til heilbrigðismála á þessum tíma? Þá myndi ég líka vilja undanskilja Covid því að það eru sérstakar aðstæður með tilliti til Covid. Það er kannski svar sem næst á mínútu.