152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna, þetta er frábær spurning. Það væri mjög freistandi að fullyrða að akkúrat þessir 16 milljarðar væru stefnumótandi ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar vegna þess að þetta er raunaukning. Þá myndi maður ætla, og alla vega vilja, að það væri þá á forsendum stefnumótandi ákvarðana. Heildarútgjöldin eru meiri og hv. þingmaður fór ágætlega inn á þá mynd sem við höfum í fjárlagafrumvarpinu varðandi þessi bundnu útgjöld og launa- og verðlagsbætur. Stóra myndin er auðvitað þessi, og það speglast mjög vel í vilja ríkisstjórnarinnar, alveg frá 2017, að raunaukning í útgjöldum til heilbrigðismála hefur verið mjög mikil. Síðan er hægt að flagga tölum í heildarútgjöldum og það er hægt að taka rammasettu útgjöldin til að taka lífeyrisskuldbindingarnar og atvinnuleysisstigið frá af því það ruglar aðeins myndina. Þetta er í raun og veru frábær spurning sem ég ætla að svara með almennum hætti en ég ætla svolítið að leggjast yfir þetta.