152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:25]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tek alveg undir með hv. síðasta ræðumanni að það verður alltaf skemmtilegasta uppákoman í fjárlaganefnd að fá hæstv. heilbrigðisráðherra á fund til að fara í gegnum málin og við eigum örugglega eftir að stríða honum dálítið. Ég ætla nú að byrja á því, þó að hér séu kannski ekki mjög margir nýir þingmenn í salnum, þó einhverjir, að óska þeim til hamingju með sæti sitt hér og ég vonast að sjálfsögðu eftir góðu samstarfi við þau öllsömul. Mér finnst þetta skemmtilegt starf. Það er líka alltaf gaman að kynnast fólki á nýjum vettvangi og ég treysti því að við náum saman á breiðum grunni í mjög mörgum málaflokkum.

Við höfum séð áherslur ríkisstjórnarinnar í allítarlegum stjórnarsáttmála og hann birtist í þessu fjárlagafrumvarpi að einhverju leyti og við getum með sanni sagt að ekki sé allt leyst í fyrsta fjárlagafrumvarpi þessarar ríkisstjórnar. En við höldum áfram að stíga mikilvæg skref. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson fór ágætlega yfir efnahagslegar forsendur í sinni framsögu og þær áherslur sem er að finna í frumvarpinu á milli fjárlagaára. Ríkisfjármálum hefur verið beitt af krafti og árangurinn hefur skilað sér bæði í auknum efnahagsumsvifum og líka betri skuldastöðu en við gerðum ráð fyrir. Við sjáum hvað atvinnulífið hefur tekið við sér og sem betur fer er atvinnuleysi á niðurleið. Þar hjálpast að hversu vel hagkerfið hefur tekið við sér og kannski ekki síður þær vinnumarkaðsaðgerðir sem stjórnvöld hafa staðið fyrir. Það birtist í betri afkomuhorfum ríkissjóðs út frá gildandi fjármálaáætlun þar sem afkomubatinn er um 66 milljarðar og áætlað er að tekjurnar verði 955 milljarðar á næsta ári.

Við þurfum áfram að vanda til verka. Við vitum að batnandi stöðu í hagkerfinu fylgir, við gerum ráð fyrir því, að þær stuðningsaðgerðir sem við höfum verið með vegna Covid renna út. Okkar verkefni er þá að stuðla að því að verðlag sé stöðugt og halda niðri vöxtum. Það er mjög mikilvægt, ekki síst svo að þær kjarabætur sem heimilin hafa fengið geti orðið varanlegar.

Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að skuldahlutfall ríkissjóðs myndi hækka í 30% undir lok 2020 eins og við sjáum í fjármálaáætluninni og svo yrði áfram á þessu ári og yfir á það næsta og yrði þá í kringum 42% af vergri landsframleiðslu. En núna er gert ráð fyrir því að skuldirnar verði um 200 milljörðum lægri sem er afar ánægjulegt og verði þar af leiðandi bara í kringum 34% af vergri landsframleiðslu, eða um 170 milljarðar. Það er nefnilega líka hlutverk okkar hér að styðja við peningastefnuna og hluti af því er að minnka undirliggjandi halla ríkissjóðs um leið og við viljum vaxa út úr kreppunni.

Á því kjörtímabili sem var að ljúka réðumst við í umfangsmiklar umbætur á skattkerfinu. Við lækkuðum tekjuskatt einstaklinga og það skilar heimilunum um 23 milljörðum í auknar ráðstöfunartekjur. Auðvitað var þetta fyrst og fremst gert til að reyna að draga úr skattbyrði þeirra tekjulægri. Endurreisn efnahagslífsins og ríkisfjármálanna í kjölfar heimsfaraldursins er og verður áfram verkefni okkar við upphaf þessa kjörtímabils. Við erum enn að sjá nýtt afbrigði af veirunni og vitum ekkert hvað það hefur í för með sér og verðum bara að takast á við það eins og það kemur fyrir, eins og við höfum gert fram að þessu. En það er mikilvægt að endurheimta styrka stöðu ríkissjóðs og við verðum að tryggja sjálfbærni ríkisfjármálanna til lengri tíma.

Raunaukning útgjalda áranna á undan, og þá sérstaklega í tengslum við þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa staðið fyrir vegna kórónuveirufaraldursins, hefur verið talsverð, um meira en fjórðung, frá því 2017. Þrátt fyrir þetta vil ég aðeins gera grein fyrir helstu áherslumálum sem koma fram í frumvarpinu sem við erum hér að fjalla um. Síðan eigum við eftir að ræða fjármálastefnuna og svo tökum við fjármálaáætlun væntanlega í mars. Ég tel að við séum að setja í forgang það sem kallað var eftir, a.m.k. þegar ég var að ræða við kjósendur. Við höldum áfram að setja í forgang heilbrigðiskerfið, menntakerfið, samgöngubætur og úrbætur í málefnum brotaþola kynferðisofbeldis. Þetta er auðvitað bara brot af því sem gert er. Við ætlum, eins og hér hefur verið rakið, að auka viðbúnað heilbrigðiskerfisins, t.d. með sérstakri farsóttardeild á Landspítalanum og fjölga bæði hágæslu- og endurhæfingarrýmum. Við ætlum að byggja hjúkrunarheimili og endurbæta þau eldri en þar þurfum við í fjárlaganefnd að kalla eftir hvernig mál hafa gengið eftir af því að við vitum það, eins og kom fram í máli hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, að peningarnir hafa ekki allir komist í vinnu og um það verðum við að fá upplýsingar. Við ætlum að halda áfram að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga og auka framlög til geðheilbrigðismála, hækka bætur örorkulífeyrisþega, frítekjumark eldri borgara. Við ætlum að reyna að halda áfram að efla og samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, höldum áfram þar sem frá var horfið með loftslagsmálin og, eins og ég sagði, við ætlum að styðja við og byggja áfram upp af miklum krafti í samgöngum og líka almenningssamgöngum. Svo má ekki gleyma því að við ætlum að halda áfram að auka framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu.

Það hafa verið viðbótarframlög vegna fjölgunar nemenda á framhalds- og háskólastigi og við ætlum að halda áfram með það og það er eitt af því sem við þurfum að skoða. Það eru t.d. ekki alveg réttar tölur í fylgiriti fjárlaga og kemur fram í frumvarpinu að þær þurfi að uppfæra. Við erum með auknar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og við höldum áfram með fjárfestingar- og uppbyggingarátak. Stærsti einstaki útgjaldaliðurinn er að styrkja Landspítalann og það sem vegur kannski þyngst þar er bygging spítalans.

Mér finnst líka mikilvægt hér að hafa það í huga að við leggjum mikla áherslu á dreifbýlið á mjög margan hátt. Partur af því er breyting á innviðaráðuneytinu. Við leggjum áherslu á aukna klasauppbyggingu og að styrkja sveitarfélögin. Við ætlum að halda áfram að byggja upp almenna húsnæðiskerfið og þar finnst mér t.d. afar mikilvægt að landsbyggðirnar eru sérstaklega nefndar. Það verður áfram áhersla á afhendingaröryggi raforku í dreifbýlinu sem ég tel gríðarlega mikilvægt. Við höldum áfram að auka fjármuni til rannsókna og nýsköpunar sem og endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Við ætlum líka að styrkja lögregluna sem ég tel að sé löngu tímabært og styrkja enn frekar starfsemi sýslumanna.

Það er líka — nú er ég hér að ruglast eitthvað. En ég ætla bara að segja hér, af því að ég ætla ekki að hafa langa ræðu, tel ekki þörf á því, að ég tel þetta fjárlagafrumvarp endurspegla áherslur ríkisstjórnar á það að vaxa út úr kreppunni, halda áfram að byggja upp velsæld með traustum efnahag með því að fjárfesta í fólki, innviðum og nýsköpun. Markmið okkar er skýrt; að stuðla að áframhaldandi efnahagslegum stöðugleika, enda vitum við að hann er forsenda kjarabóta heimilanna.

Þetta er fjölþætt verkefni sem við stöndum frammi fyrir og það er í þessu sambandi kannski eitt stórt mál fram undan sem er vinnumarkaðsmálin. Það er mjög mikilvægt að við stuðlum að áframhaldandi efnahagslegum stöðugleika, enda er hann forsenda þess að kjarabæturnar haldi. Við þurfum að tryggja gott samspil hagstjórnar og kjarasamninga. Það markmið á auðvitað alltaf að vera hjá okkur sem hér störfum að bæta lífskjör allra, það á ævinlega að vera markmið okkar. Ég tel að við séum að halda áfram að búa til umhverfi sem styður við aukna verðmætasköpun. Með því að styðja við stafræna innviði aukum við skilvirkni, við tryggjum öryggi, við bætum þjónustu og samkeppnishæfni. Hagstjórnin hefur verið ábyrg og skilað okkur betra samfélagi og áfram viljum við styðja við þá sem þurfa á því að halda og veita öllum jöfn tækifæri.

Ég vil aðeins segja að fram undan er mikil vinna í fjárlaganefnd. Það er ljóst að tíminn er knappur hjá þinginu og hv. fjárlaganefnd til að vinna þetta og rýna þetta frumvarp, fara ofan í saumana á fjölda málefnasviða og málaflokka, taka á móti gestum og kalla eftir frekari upplýsingum og eins og hér hefur komið fram í andsvörum í dag þá er líka gríðarlega mikilvægt að við fáum haldgóðar upplýsingar frá ráðuneytunum, ekki síst í ljósi þess að við erum að breyta Stjórnarráðinu talsvert mikið. Ég tel að það sé alveg ljóst að það kalli á talsverðar tilfærslur og talsverðar breytingar og við verðum að fá andrými til að fara ofan í þær. Þessar fyrstu kynningar sem við fáum frá ráðuneytunum byggja auðvitað dálítið á frumvarpinu, geri ég ráð fyrir, og þess vegna held ég að við þurfum að gefa okkur góðan tíma til að fara vel yfir þetta og einmitt að kalla eftir ítarlegum upplýsingum eins og m.a. hv. þm. Björn Leví Gunnarsson nefndi í samtali við ráðherra áðan.