152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:44]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nákvæmlega þetta var sagt á hverju ári allt síðasta kjörtímabil og það gerðist ekki neitt. Núna kalla menn það eitthvert skref þar sem talað er um að hækka örorku- og endurhæfingarlífeyri um 15.000 kr. Lífskjarasamningurinn gerir ráð fyrir rúmlega 17.000 kr. hækkun fyrir lágmarkstekjutrygginguna. Auðvitað hverfur það bara inn í verðbólguna, en það er samt sem áður þessi krónutala. Það á að skilja öryrkja og ellilífeyrisþega eftir sem eru í verstri stöðu. Hins vegar á að hækka frítekjumark launatekna fyrir þá ellilífeyrisþega sem best eru staddir og geta unnið. Það er bara fínt skref en það er það ódýrasta af öllum skrefum sem hægt væri að stíga. Frítekjumark launatekna hjá öryrkjum hefur ekki breyst síðan árið 2009, (Forseti hringir.) sama krónutala. Hún ætti a.m.k. að hafa tvöfaldast ef launavísitala hefði þar verið á ferðinni. (Forseti hringir.) Er ekki jafn mikilvægt að gefa öryrkjum þarna (Forseti hringir.) hvatningu til virkni og möguleika til að krafsa sig upp úr fátæktargildrunni sem búið er að skrúfa þá niður í?