152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:55]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Í seinna andsvari langar mig að spyrja hv. formann fjárlaganefndar um útgjaldarammann sem liggur fyrir upp á 1.203 milljarða. Hann hefur vaxið umtalsvert ef við horfum til undanfarinna ára. Hv. þingmaður nefndi það í ræðu sinni að raunaukning útgjalda hefði verið um fjórðungur síðan 2017, ef ég greip þá tölu rétt. Mig langar í því samhengi að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvar þingmaðurinn telji helst svigrúm til aðhalds, farandi inn í þá vinnu sem fram undan er innan fjárlaganefndar. Nú liggur fyrir að það er búið að senda frumvarpið út til umsagnar þannig að maður getur ekki annað en metið það sem svo að meirihlutaflokkarnir séu komnir á sprettinn í málinu. Þess vegna langar mig að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvar helst sé svigrúm til aðhalds og í hvaða áttir þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu ættu að leita eftir leiðum til að draga úr heildarútgjöldum hins opinbera. Það getur bara ekki verið að í 1.200 milljarða útgjaldaramma sé hvergi borð fyrir báru.

(Forseti (BLG): Forseti biðst afsökunar á klukkunni, hún dettur alltaf í tvær mínútur, þarf að laga hana handvirkt í hvert skipti. En þingmenn eiga að vita að það er ein mínúta í andsvör.)