152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur nú kynnt ný fjárlög og eins og allt síðasta kjörtímabil virðist kynningin helst ganga út á það að hæstv. ráðherra státi sig af því hversu mikil útgjaldaaukningin er, hvað ríkið er að borga miklu meira í eitt og annað. Mikið af upptalningu hæstv. ráðherra í framsöguræðu hans snerist einmitt um það að ríkið væri núna að borga meira en í fyrra fyrir þetta og meira en í fyrra fyrir hitt. Þetta er formaður Sjálfstæðisflokksins sem kynnir fjárlög sem virðast fyrst og fremst ganga út á það að auka ríkisútgjöld. Eflaust er þetta afleiðing af því hvernig þessi stjórn er samansett úr flokkum sem áður tilheyrðu hægrinu og vinstrinu og á sínum tíma miðjunni á hinum pólitíska skala, en hafa þó allir breyst og orðið líkari hver öðrum. En til að koma þessu stjórnarsamstarfi af stað þurfti væntanlega að gera ráðstafanir sem væru ekki of pólitískar. Fjárlagafrumvörp síðustu ríkisstjórnar tóku mið af því og nú með nýrri ríkisstjórn eða endurnýjaðri ríkisstjórn virðist vera haldið áfram á sömu braut. Til að fá að vera saman í ríkisstjórn og skipta með sér ráðherrastólum og verkefnum sé einfaldlega best að útgjöldum sé þannig háttað að allir fái að setja eitthvað í sín tilteknu gæluverkefni fremur en að þar birtist pólitísk sýn, pólitísk stefna, hvað þá langtímasýn eða langtímastefna. Fjárlög eftir fjárlög fá allir einhver útgjöld og svo kemur hæstv. ráðherra og státar sig af því hvað hann sé að eyða miklu meira þetta árið en árið á undan. Hæstv. ráðherra má reyndar eiga það að hann nefndi í ræðu sinni að þetta gengi í rauninni ekki svona áfram. Það þyrfti að taka á sívaxandi útgjaldaaukningu ríkissjóðs. Gott og vel. Rétt hjá hæstv. ráðherra. En í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra tók við embætti fyrst fyrir hátt í áratug hlýtur maður að velta fyrir sér hvers vegna þetta hafi gengið svona þetta lengi. Að vísu má hæstv. ráðherra eiga það að á árunum 2013–2016 var hann aðhaldssamur, stundum jafnvel helst til aðhaldssamur hvað varðar fjárfestingar á sviðum sem maður taldi að gætu gefið meiri tekjur til framtíðar. En ráðherrann var aðhaldssamur, það var stefnan og það gat verið erfitt á þeim tíma að sýna aðhaldssemi. En með breyttri ríkisstjórn og svo annarri og svo enn annarri virðist fjármálaráðuneytið, undir forystu hæstv. ráðherra, í síauknum mæli sætta sig við það að leiðin til að halda stjórn saman sé einfaldlega sú að auka útgjöldin.

Þannig birtast mörg dæmi um slíkt í þessu fjárlagafrumvarpi, sem mörg, reyndar furðu mörg, virðast eiga rætur að rekja til Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs ekki hvað síst, þó að ég verði nú að ítreka það sem ég kom inn á í byrjun, að maður sér minni og minni mun á þessum flokkum. Það er eins og að samstarfið, en kannski tíðarandinn, valdi því að þeir séu smátt og smátt að verða að einum flokki.

Eitt af því sem vekur sérstaka athygli eru útgjöld vegna loftslagsmála. Þar upplýsti hæstv. ráðherra okkur um það að útgjöldin hefðu aukist verulega og myndu aukast verulega áfram. Það væri sérstakt markmið, alveg sérstakt markmið, þessarar ríkisstjórnar að útgjöldin héldu áfram að aukast. Þetta er áhugavert að heyra frá fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, að það sé sérstakt markmið að útgjöld haldi áfram að aukast. Markmiðið, að sögn hæstv. ráðherra, er að auka útgjöldin um a.m.k. milljarð á ári þannig að aukningin verði í heild komin í um 10 milljarða, bara aukningin miðað við það sem hafist var handa með í lok kjörtímabilsins. Og hvar á þetta að enda ef sams konar ríkisstjórn heldur áfram á næsta kjörtímabili? Hvar á þetta enda fyrst að markmiðið er einfaldlega það að auka útgjöldin? Markmiðið er ekki að skila tilteknum árangri, alla vega ekki árangri sem hefur verið útskýrður, hvað þá hvernig eigi að ná þeim árangri. Markmiðið er að auka útgjöldin. Þetta kynnir hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, fyrir þinginu nú. Það er sérstakt markmið hjá þessari ríkisstjórn að auka útgjöld.

En hvers vegna kynnir hæstv. ráðherra þetta með þessum hætti? Það er vegna þess að þessi málaflokkur, loftslagsmálin, kannski umhverfismálin eins og Vinstrihreyfingin – grænt framboð skilgreinir þau almennt, snýst fyrst og fremst um yfirbragð, ásýnd, umbúðir, eins og við sjáum aftur og aftur í stefnu þessarar ríkisstjórnar, nú síðast í stjórnarsáttmálanum þar sem gert er ráð fyrir því m.a., og alveg ótrúlegt að það hafi ekki vakið meiri athygli en raun ber vitni, að loftslagsráð fái jafnt og þétt aukin völd, aukin völd í samfélaginu, aukin völd yfir stjórnmálamönnum. Ríkisstjórnin kynnir það að þetta ráð, skipað væntanlega „sérfræðingum“, eigi að hennar mati að fá jafnt og þétt aukin völd við stjórn landsins og yfir kjörnum fulltrúum. Kannski ætti þetta ekki að koma manni á óvart því þetta er jú þrátt fyrir allt kerfisstjórn. Sú kerfisstjórn sem stofnað var til á sínum tíma þar sem þrír ólíkir flokkar, alla vega sögulega séð, náðu saman um að skipta á milli sín ráðuneytum, fá að útdeila ákveðnum gæðum úr ólíkum ráðuneytum en forðast pólitík að öðru leyti en því sem kerfið myndi leiðbeina þeim með. Og hér höfum við fjárlagafrumvarp sem er unnið í kerfinu, enda er ríkisstjórnin mynduð aðeins fáeinum dögum áður en mælt var fyrir fjárlagafrumvarpinu. Það var augljóst að þetta fjárlagafrumvarp hefði ekki verið samið af ríkisstjórninni sem einhverra hluta vegna tók sér þó mjög langan tíma í að skrifa 60 blaðsíðna stjórnarsáttmála og skipta á milli sín ráðuneytum. Þetta var frumvarp úr kerfinu en það hentar þessari ríkisstjórn ágætlega. En þegar það skortir pólitíska sýn, alveg sérstaklega þá í þessu tilviki þá sýn að það þurfi að fara vel með fjármagnið og spara og hafa einhverjar gæðakröfur hvað varðar útdeilingu fjármagns, þá fáum við fjárlagafrumvarp eins og þetta þar sem mörg þeirra útgjalda sem vekja mesta athygli eru til óþurftar og jafnvel í sumum tilvikum til tjóns. Mörg sagði ég, ekki öll, auðvitað ekki öll.

Hæstv. ráðherra státar sig af því að vera enn að auka framlög til heilbrigðismála eins og það sé sérstakt markmið að útgjöldin verði meiri. En það er minna að frétta af því hvernig þessi útgjöld eru nýtt sem hefur algjörlega skort hjá þessari ríkisstjórn allt síðasta kjörtímabil og að því er virðist áfram núna. Það er engin gæðastýring. Það er enginn að velta því fyrir sér hvað fæst fyrir peningana, hvernig þeir nýtast best samfélaginu. Þetta snýst allt um að státa sig af því að vera auka útgjöldin. En í mörgum tilvikum er þessi útgjaldaaukning jafnvel til tjóns. Ég ætla bara að nefna hérna til að byrja með eitt lítið dæmi, nýja stjórnarráðsbyggingu sem ríkisstjórnin ætlar sér samkvæmt þessum fjárlögum að verja allmörgum hundruðum milljóna í að byggja fyrir aftan gamla Stjórnarráðshúsið sem hefur dugað ágætlega frá því að fyrsti ráðherrann tók við embætti, þó reyndar með aðstöðu í öðru húsnæði seinni hluta 20. aldar. En nú ætlar ríkisstjórnin að auka við fjárveitingar til forsætisráðuneytisins til að byggja þetta hús sem er til óþurftar, að byggja steinsteypu- og glerkassa fyrir utan gamla Stjórnarráðshúsið.

En líklega ætti þetta ekki að koma okkur á óvart. Við höfum séð merki um í hvað stefndi hvað þetta varðaði á síðasta kjörtímabili og við höfum séð merki um útgjaldaaukningu forsætisráðuneytisins alveg sérstaklega og eftir höfðinu dansa limirnir. Aldrei áður í sögu þingsins, í sögu íslenskra stjórnmála, hefur útgjaldaaukning til forsætisráðuneytisins verið eins mikil og hröð og núna. Og ég held mér sé óhætt að segja að aldrei áður hafi fjölgun starfsmanna í því ráðuneyti verið eins mikil og núna. Nú stendur til að byggja yfir alla þessa fjölgun starfsmanna og haldi sama ríkisstjórn áfram þá hlýtur hún að þurfa að bæta við annarri hæð til þess að taka við enn fleira starfsfólki, haldi þróunin áfram eins og hún gerði á síðasta kjörtímabili.

Það skortir alla umfjöllun um hvernig fjármagnið er nýtt, hvort það er skynsamleg fjárfesting til framtíðar fyrir samfélagið eða jafnvel til tjóns. Eitt af skýrustu dæmunum um slíkt, sem birtist mjög glögglega í þessu fjárlagafrumvarpi, eru auðvitað áform ríkisstjórnarinnar um að leggja óhemju fé í að fjármagna kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík, borgarlínu- og samgöngusáttmála svokallaðan. Þetta er þrátt fyrir að það hafi komið í ljós fyrir löngu síðan að borgin ætlaði ekkert að standa við sinn hluta þess samkomulags. Ég held að a.m.k. tveir formenn skipulagsráðs Reykjavíkur hafi lýst því yfir opinberlega að þeir ætluðu ekki að standa fyrir þeim samgöngubótum sem ríkisstjórnin taldi sig þó vera að fá fyrir að greiða þetta lausnargjald, ef svo má segja, fyrir borgarlínuna, þ.e. endurbætur á nokkrum gatnamótum á höfuðborgarsvæðinu. Í Reykjavík a.m.k. Eru menn búnir að kveikja á perunni hvað varðar samskiptin við ríkisstjórnina, átta sig á því að það sé í rauninni alveg sama hvað borgin geri gagnvart stjórninni, hún muni bara borga og hún muni láta sig hafa það? Miðað við þessi fjárlög þá virðist það vera rétt mat. Við vitum það nú þegar og höfum eftir tveimur formönnum skipulagsráðs í Reykjavík að borgin ætlar ekki að standa við það sem ríkisstjórnin síðasta, sem nú heldur áfram, taldi sig vera að kaupa með framlögum til borgarlínu. En ríkisstjórnin bara borgar áfram. Það er vegna þess að þetta eru kerfisfjárlög. Þetta eru ekki pólitísk fjárlög. Þetta eru fjárlög byggð á því sem kerfið skilar og gerir stjórnarflokkunum kleift að starfa saman áfram og halda í sína ráðherrastóla, jafnvel þó að það kosti það að fjármagna kosningaloforð númer eitt hjá Samfylkingunni í Reykjavík.

Það verður áhugavert að fylgjast með næstu kosningum í Reykjavíkurborg, borgarstjórnarkosningum, þegar Samfylkingin og núverandi borgarstjóri geta stigið fram í kosningabaráttu og sagt: Sjáið bara hverja er best að kjósa. Við stjórnum þessu öllu. Við ráðum í samskiptum við ríkið, hvort sem það varðar borgarlínu, samgöngubætur almennt, Reykjavíkurflugvöll, sem var blandað í eitt af þessum samkomulögum sem ríkisstjórnin lét plata sig í að gera, eða annað það sem er samkomulagsmál milli ríkisins og borgarinnar. Við sjáum þó á fjárlögunum að ríkisstjórnin er engu nær um hvað þetta muni allt saman kosta. Hún ætlar bara að borga, halda áfram að borga. Það liggur ekki enn fyrir hvað borgarlínan svokallaða mun kosta í heild sinni, hvað þá að nokkur einasti maður hafi hugmynd um hvað muni kosta að reka hana. En ríkisstjórnin heldur áfram að elta gulrótina og ætlar að borga, jafnvel að skuldbinda ríkið að meira eða minna leyti til áratuga þótt hæstv. ráðherra hafi reyndar stundum sagt það að þetta verði tekið fyrir á hverju ári við gerð fjárlaga og metið hver kostnaðurinn verði og hvort eigi að grípa inn í. Dettur einhverjum í hug að þessi ríkisstjórn myndi grípa inn í og stoppa framkvæmdina þegar hún væri komin af stað? Ég held að það detti ekki nokkrum einasta manni það í hug, ríkisstjórn sem meira að segja sendir fjárlögin til umsagnar áður en þingið hefur fengið að ræða þau.

Eins og ég gat um áðan gætir þó dálítils ótta hjá hæstv. ráðherra, ég vona að hann sé einlægur, við útgjaldavöxtinn. Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni, framsöguræðu, með leyfi forseta: „Útgjaldavöxtur verður að vera eitthvað hóflegri en hann hefur verið undanfarin ár.“ Hér talar ráðherra fjármála sem tók fyrst við embætti fyrir hátt í áratug og skilar nú fjárlagafrumvarpi þar sem gert er ráð fyrir hátt í 200 milljarða kr. halla á sama tíma og búist er við því að þensla geti aukist eða eins og hæstv. ráðherra orðaði það í ræðu sinni: Nú gætir framleiðsluspennu í hagkerfinu. Engu að síður skilar hæstv. ráðherra fjárlögum með halla upp á annað hundruð milljarða króna eftir krísutímann, þegar við vorum að fást við faraldurinn og ríkið útdeildi miklu fjármagni í að takast á við það. Nú þegar gætir, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, framleiðsluspennu í hagkerfinu skilar ný ríkisstjórn fjárlögum með gríðarlegum halla. Hvers vegna? Jú, vegna þess að ríkisstjórnin telur að hún komist upp með það og það sé þægilegra, til að hafa alla góða, að eyða sem mestum peningum, hvað sem líður varnaðarorðum hæstv. ráðherra um það að útgjaldavöxtur verði að vera eitthvað hóflegri en hann hefur verið undanfarin ár. En það er seinni tíma vandamál. Ég veit ekki hvort það er vandamál fyrir næstu ríkisstjórn en það var a.m.k. að heyra á hæstv. ráðherra í ræðunni að það væri eitthvað til að finna út úr síðar, e.t.v. þegar Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að fara með fjármálaráðuneytið í nokkur ár í viðbót.

Hæstv. ráðherra sagði líka að við þyrftum að taka til umfjöllunar hvernig við beitum ríkisfjármálunum þannig að þau rími sem best við aðstæður dagsins í dag. Ríma þessi fjárlög við aðstæður dagsins í dag þegar hæstv. ráðherra segir sjálfur að á sama tíma gæti framleiðsluspennu í hagkerfinu? Það er líklega ekki tímabært að finna út úr því. Það er líka seinni tíma mál.

Það er gert ráð fyrir að auka útgjöld til fjölmargra málaflokka og við höfum svo sem séð það á undanförnum árum. En tölurnar sem birtast í þessu fjárlagafrumvarpi og í tengslum við það eru nokkuð sláandi eins og hæstv. ráðherra fór yfir að nokkru leyti. 9.000 nýir ríkisstarfsmenn á síðasta kjörtímabili og nýjar stofnanir sem að því er virðist eru enn óteljandi. Hæstv. ráðherra hefur ekki getað svarað því, kannski gert ráð fyrir mörgum nýjum ríkisstofnunum á þessu kjörtímabili en það er a.m.k. ljóst að þær verða allmargar miðað við yfirlýsingar annarra hæstv. ráðherra.

Ég kemst ekki hjá því að velta fyrir mér hvort ágætur fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, eigi ekki að fá eitthvert smá hrós frá ríkisstjórninni fyrir að hafa með þessum hætti lagt drög að, að einhverju leyti, nálgun þeirra á rekstur ríkisins. Þingmaðurinn Ágúst Ólafur Ágústsson kom hér upp aftur og aftur og talaði stöðugt fyrir því að það þyrfti að fjölga ríkisstarfsmönnum og þá væntanlega ríkisstofnunum um leið. Hæstv. fjármálaráðherra tók ekki undir þetta á sínum tíma en virðist núna hafa séð ljósið og mér þykir rétt í ljósi þess hversu óþreytandi Ágúst Ólafur Ágústsson var við að benda á þetta, þó að ég hafi ekki verið sammála honum, að hann fái smákredit, afsakið, herra forseti, fyrir þátt sinn í þessu fjárlagafrumvarpi. Og kannski má segja það sama um Samfylkinguna almennt og aðra flokka.

Það sem vekur kannski ekki hvað síst athygli, eða undrun skulum við segja, en er um leið lýsandi fyrir hvers eðlis þetta frumvarp er, eru hinir svokölluðu skattstyrkir. Ég verð nú að viðurkenna fyrir hæstv. forseta að ég hafði ekki tekið eftir þessu fyrr en hv. þm. Bergþór Ólason nefndi það í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. En þetta er eitt það furðulegasta sem ég hef séð í fjárlagafrumvarpi en því miður lýsandi. Kannski ekki því miður, kannski er bara ágætt að fá svona lýsandi hugtak, lýsandi fyrir það hvernig þessi ríkisstjórn nálgast skattlagningu og skattkerfið. Gert er ráð fyrir að þessir svokölluðu skattstyrkir muni nema um 3,1% af vergri landsframleiðslu. Það kemur líka fram að um helmingur skattstyrkjanna birtist í formi munsins á hærra og lægra virðisaukaskattsþrepinu. Með öðrum orðum, nánast með sömu orðum og því er lýst í fjárlagafrumvarpinu, er það viðhorf þessarar ríkisstjórnar að ríkið eigi í rauninni alla þá peninga sem fólk vinnur sér inn. Þetta sé bara spurning um það hversu háu hlutfalli af tekjum fólks, hvort sem það vinnur mikið eða lítið, leggur mikið á sig eða minna, hversu háu hlutfalli af tekjum fólks eigi að skila aftur sem þá einhvers konar gjöf eða skattstyrk ríkisins. Ef þú ert ekki að borga þann hæsta skatt sem hæstv. fjármálaráðherra eða fjármálaráðuneytið gat ímyndað sér þá áttu að fá styrk frá ríkinu. Þú átt að fá að halda eftir meiru en við hefðum getað tekið af þér. Þetta er lýsandi fyrir hugarfarið sem fjárlagafrumvarpið byggir á og hefur gert of lengi.

Annað grundvallarvandamál við það hvernig fjárlagafrumvarp er unnið, til viðbótar við þetta hugarfar að allar tekjur fólks séu í raun í eigu ríkisins þangað til það fær afslátt eða styrki, skattstyrki, er hvernig fjárlagafrumvarp tekur yfirleitt ekki á heildarmyndinni eða langtímaáhrifum þess sem gert er. Það er nánast eingöngu litið til útreiknanlegra áhrifa næstu 12 mánuðina. Auðvitað gerir ríkisstjórn fjármálaáætlun og slíkt en það er ekkert tekið til heildarmyndarinnar hvað varðar útgjöld eða sparnað. Hvað fæst fyrir peningana? Hvað fæst fyrir peningana til lengri tíma litið? Hverju skilar sparnaðurinn? Hvað skilur sparnaðurinn eftir hjá almenningi og hversu mikið af því kemur til baka til ríkisins? Á meðan menn líta hvorki á heildarmyndina né langtímaáhrif í fjárlögum þá taka þeir ekki réttar ákvarðanir af því að þeir eru ekki með heildarmyndina. Þetta er vandi við fjárlög sem hefur ekki verið leystur með nýjum lögum um ríkisfjármál, eiginlega þvert á móti, því að áhrifin af lögum um opinber fjármál hafa fyrst og fremst verið þau að færa valdið yfir ákvarðanatöku um fjármál ríkisins frá kjörnum fulltrúum, sem kjósendur geta þá haft áhrif á og refsað eða verðlaunað eftir atvikum, til stjórnkerfisins. Og stjórnkerfið bætir iðulega í, eins og við sjáum í þessu frumvarpi, með gríðarlegri aukningu ríkisstarfsmanna eftir síðastliðið kjörtímabil og áformum um enn nýjar ríkisstofnanir. Svoleiðis að pólitísku áhrifin, áhrifin af því sem núverandi þingmenn stjórnarflokkanna sögðu fyrir kosningar, eru mjög takmörkuð. En menn munu eflaust sem fyrr láta sér það bara vel líka til að fá að vera í ríkisstjórn, fá að vera í meiri hluta án þess að pólitísk stefna eða sýn sé að þvælast fyrir.

Raunaukningin í ríkisútgjöldum, að sögn hæstv. fjármálaráðherra, frá árinu 2017 nemur um fjórðungi. Raunaukningin. Hversu mikið hafa útgjöld ríkisins að raunvirði aukist frá því að hæstv. ráðherra tók við sem fjármálaráðherra? Það væri áhugavert að heyra það en aukningin er a.m.k. mikil. Og nú er bætt í. Við sjáum í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar ýmis áform sem virðist algerlega vera sleppt í áætluðum kostnaði við aukin útgjöld ríkissjóðs á næsta ári samkvæmt fjárlögunum. Ég ætla bara að nefna tvö dæmi. Ríkisstjórnin ætlar að halda áfram með fyrri áform um það að hafa opnustu stefnu, hugsanlega opnustu stefnu Evrópu, í flóttamannamálum. Opna, ekki í merkingunni að það sé jákvætt heldur opna í þeirri merkingu að menn ætla einfaldlega ekki að reyna að hafa stjórn á málunum. Það verði sama með hvaða hætti menn koma til landsins. Þetta gengur þvert á það sem hin Norðurlöndin eru að gera, að reyna að stýra fólki inn í örugga kerfið, taka við kvótaflóttamönnum. Með þessu verður flóttamönnum stýrt inn í það að fara fram hjá örugga lögformlega kerfinu og koma til Íslands með þeim hætti vegna þess að þeir fái sömu þjónustu, sama stuðning, óháð því hvernig þeir koma. Hvar birtist það í fjárlagafrumvarpinu hvað þetta muni kosta? Hvergi. Hvað með áform sem hafa verið kynnt í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar um lögleiðingu fíkniefna, sem mér sýnist menn ætla að reyna að nota orðskrípið afglæpavæðingu yfir? Við áttum hér góða umræðu um það mál og það bárust ýmsar góðar umsagnir og mikilvægar frá sérfræðingum á þessu sviði, frá læknum, frá lögreglu og öðrum. Ef menn ætla að fara inn á þessa braut þá mun það kosta. Meginkostnaðurinn verður að sjálfsögðu í því að glæpagengi sem sjá um sölu fíkniefna munu hafa frjálsari hendur en áður og fleiri munu lenda í þeirri hættu að leiðast inn á braut fíkniefnaneyslu. Það er megintjónið en það mun kosta samfélagið líka fjárhagslega. Ekki er gert ráð fyrir því í fjárlögunum, hvorki auknum kostnaði við að takast á við aukinn vanda né öðrum kostnaði sem mun fylgja því að auka frjálsræði til fíkniefnaneyslu.

Svo eru auðvitað fjölmörg ónefnd mál sem ég hefði viljað ná að fara yfir hér í þessari ræðu, þar með talið biðlistarnir allir. Þar virðist svar ríkisstjórnarinnar, miðað við fjárlagafrumvarpið, helst liggja í því að það standi til að halda betur utan um biðlistana, ekki að eyða þeim endilega heldur hafa betri yfirsýn yfir biðlistana. Það er svo sem þakkarvert, geri ég ráð fyrir, og gefur okkur tækifæri til að ræða þau mál hér frekar í þinginu.

Ég sé, herra forseti, að tími minn er á þrotum en ég á töluvert eftir í umræðum um þessi fjárlög og bið virðulegan forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.