152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[16:29]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Það var margt ágætt í þessari ræðu þótt ég taki svo sem ekki endilega undir allt af því sem hann sagði, kannski ekki síst varðandi samgöngumálin, borgarlínuna og loftslagshlutann í ræðu hans. En það var margt forvitnilegt sem var þar að finna.

Hv. þingmaður gegndi starfi forsætisráðherra um skeið og nú erum við auðvitað að meta þessa ríkisstjórn út frá þeim fjárlögum og þeirri stefnu sem kynnt hefur verið og inni í því öllu er alveg meiri háttar uppstokkun á öllu Stjórnarráðinu. Það er endalaust verið að flytja til verkefni á milli ráðuneyta, búa til ný ráðuneyti. Það er verið að gera þetta, að manni finnst, að sumu leyti pínulítið óskilvirkara. Ég verð þó a.m.k. að virða ríkisstjórninni það til vorkunnar að ég hef ekki heyrt nánari útlistanir á mörgu af því sem þarna er undir. En það sem maður veltir fyrir sér, og þess vegna væri ágætt að heyra um það frá hv. þingmanni, hann gæti þá miðlað af reynslu sinni sem fyrrverandi forsætisráðherra, er: Treystir hann sér til að leggja einhvers konar mat á svona æfingar og tilfærslur í Stjórnarráðinu, þar sem ný ráðuneyti eru búin til, verkefni færð á milli, skólamálin bútuð niður og flutt á milli ráðuneyta? Sama má segja um menningarmálin og fleira Hefur hv. þingmaður áhyggjur af því að þetta geti þýtt að starfsemi Stjórnarráðsins og ráðuneytanna verði óskilvirkari, að boðleiðir lengist, að ferlar og öll ákvarðanataka verði þyngri í vöfum, og þá fyrir vikið, af því að við erum að ræða hér um fjárlög, að þarna sé kannski falin einhver viðbótarkostnaður sem við sjáum kannski ekki birtast nákvæmlega sundurgreint í neinum tölum sem liggja fyrir í þessum fjárlögum?