152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[16:37]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talaði hér um að sér þætti kannski fullmikið í lagt í loftslagsmálin í þessu fjárlagafrumvarpi. Ég ætla að vera honum ósammála því í grundvallaratriðum af því að það þarf að leggja miklu, miklu meira í þann málaflokk. Það skilar ekki bara árangri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum heldur bara betra samfélagi og betri heimi.

En ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði um eina 10 milljarða sem yrði hækkað um í lok tímabilsins. Ég held að hérna hafi hv. þingmaður gripið mismæli hjá hæstv. ráðherra í framsöguræðu vegna þess að talnaleikfimin er orðin svo mikil hjá ríkisstjórninni til að láta hlutina líta betur út að þau flækja sig meira að segja sjálf í vefnum.

Eins milljarðs hækkun á ári næstu tíu ár var kynnt í síðustu fjármálaáætlun og var meira að segja sett upp þessi fína tafla sem sýnir síðan að undir lok fjármálaáætlanatímabilsins fara framlögin lækkandi. Þessi milljarður er 1 milljarður á ári, eða eins og stendur í frumvarpinu sjálfu: „eða alls um 10 milljarðar kr. á tímabilinu“. Það sem ráðherrann sagði hins vegar í framsöguræðu sinni var: „… í heild um 10 milljarða árlega í lok tímabilsins“.

Ég held að hið talaða orð hafi einfaldlega verið vitlaust, því miður. Það væri alveg frábært ef verið væri að auka framlög um þetta háa upphæð, en svo held ég að sé ekki. En ég velti fyrir mér hvort þetta sé ekki einmitt til marks um þá ofuráherslu á umbúðir sem hefur verið hjá ríkisstjórninni, að vera kannski ekki endilega ríkisstjórn hinna stóru verka heldur að blása verkin út í orðum þannig að þau líti betur út. Það er nú kannski ekki heiðarlegasta framsetningin en það er orðið dálítið slæmt þegar ráðherrarnir sjálfir geta ekki einu sinni lesið út úr henni.