152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[16:49]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Ég er honum sammála um að við erum ósammála um margt en að þessu leyti getum við gengið hönd í hönd. Ég held að það segi allt ákveðna sögu um vinnulag, verklag og sýn þessarar ríkisstjórnar, að það sé ákveðin birtingarmynd þess að hún er stofnuð um litla sem enga hugmyndafræði, að fjöldaframleiða nefndir. Ég hef áhyggjur af því að það muni halda áfram á þessu kjörtímabili. Vitaskuld er það ekki þannig að allir sem taka sæti í nefndum á vegum hins opinbera þiggi greiðslur fyrir það eða að allt nefndastarf sé þarflaust, það er auðvitað víðs fjarri. En það er auðvitað þannig líka með ríkisstarfsmann sem tekur sæti í enn einum starfshópnum eða enn einni nefndinni að önnur verkefni bíða og í því felst líka kostnaðurinn. Ég hef áhyggjur af því í samhengi við þær breytingar sem nú er verið að leggja til, þar sem Stjórnarráðinu er í raun bara hent í loft upp og svo sjáum við hvernig púslbitarnir falla á gólfið, hvað það mun þýða í glötuðum vinnustundum innan Stjórnarráðsins.