152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[16:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki annað en tekið undir mat hv. þingmanns á þeim áhrifum sem vænta má af þessari uppstokkun eða því að henda púslunum upp í loftið, eins hv. þingmaður orðaði það. Það að ráðast í breytingar á verkaskiptingu og einhverjar tilfæringar getur verið allt í lagi ef það er hluti af einhverju plani, hluti af áformum um að gera hlutina betur. En það að henda öllu upp í loft bara til þess að sjá hvar hlutirnir lenda kann ekki góðri lukku að stýra. Ég tel þetta áhyggjuefni, ég tek undir það með hv. þingmanni, og við sjáum öll merkin. Við sjáum þau í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, við sjáum þau í fjárlagafrumvarpinu, jafnvel í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra, að þetta er það sem ríkisstjórnin ætlar að gera; eyða peningum og búa til nýjar nefndir, ný hlutverk, ný verkefni til þess að geta einfaldlega setið áfram.