152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[16:52]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér í 1. umr. framlagt fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Mig langar í upphafi að rekja það að vinna þingsins við það frumvarp verður unnin á mjög skömmum tíma, eins og öllum er ljóst. Finnst mér það galli eða finnst mér það áskorun? Já, mér finnst það í sjálfu sér mikil áskorun en ég vil þá líka rifja upp að í öllum aðalatriðum fylgir þetta fjárlagafrumvarp þeirri fjármálaáætlun sem rædd var og ályktað var um hér í þinginu í vor og gerð er grein fyrir því með skýrum hætti í texta fyrirliggjandi fjárlagafrumvarps hvar vikið er frá þeirri fjármálaáætlun og hvar þau útgjöld og hvar þær breytingar eru helstar. Staðan er því með nokkuð öðrum hætti en þegar við komum hér saman fyrir fimm árum, einmitt á aðventu, og höfðum þá þing sem ekki hafði komið sér saman um meirihlutaríkisstjórn og þingið var sett í þá stöðu að setja fjárlög fyrir næsta ár og stóðst þá áskorun með miklum ágætum. Ég ætla aðeins að rifja þetta upp í upphafi ræðu minnar í tilefni af þeirri umræðu sem hefur orðið hér fyrr í dag. Einmitt vegna þess að við höfum haft það verklag hér á undanförnum árum, með lögum um opinber fjármál, að ræða fjármálaáætlun að vori — þar sem allar nefndir þingsins fara með nákvæmum hætti yfir markmiðin og stefnuna sem lögð er fram — kemur þingið ekki alveg jafn kalt að því að ræða þetta fjárlagafrumvarp eins og það hefði kannski gert með gamla fyrirkomulaginu þar sem tölurnar væru þá að birtast mörgum í fyrsta sinn.

Ég vil líka rifja það upp, virðulegi forseti, að á síðasta ári ræddi þingið fimm fjáraukalagafrumvörp og þetta eru ákaflega sérstakir tímar. Þess vegna langar mig að segja: Mér finnst þetta fjárlagafrumvarp raunverulega vera frábær vitnisburður um að þingið og ríkisstjórnin brugðust ekki í því ástandi sem upp var komið í samfélagi okkar. Okkur hefur tekist að haga málum með þeim hætti að viðbrögðin í ríkisfjármálum hafa tekið utan um samfélagið og viðspyrnan hefur orðið kröftug og öflug. Hæstv. fjármálaráðherra fór mjög vel yfir það, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöldi, hvernig okkur birtist þessi sterki einkageiri, þetta sterka einkaframtak í samfélaginu, og hvernig það bjó til þá viðspyrnu sem við erum að byggja á hér í dag — með því að við beittum ríkisfjármálunum til að halda utan um samfélagið, auka fjárfestinguna, mæta ástandinu með sjálfvirkum sveiflujöfnurum og grípa utan um aukið atvinnuleysi. Staðan er einfaldlega sú í dag að atvinnuleysi hefur minnkað, kaupmáttur hefur verið varinn og það er kraftur í efnahagslífinu.

Ég tek undir áhyggjur manna af því að það sé alvarlegt mál að vera með ríflega 170 milljarða halla á fjárlagafrumvarpi og þar af leiðandi á fjárlögum, allt eftir því hvernig þau líta út eftir meðferð þingsins, vonandi eftir nokkrar vikur. Það er hins vegar allt önnur staða en við horfðum fram á fyrir nokkrum mánuðum og allt önnur staða en spár sögðu til um fyrir nokkrum mánuðum. Ég held að það sé alveg ástæða til að ræða það líka, þegar við ræðum þetta fjárlagafrumvarp, hvernig við höfum stigið þessa öldu, hvernig við höfum brugðist við og hvaða árangri við höfum náð. Mér finnst árangurinn fullkomlega ásættanlegur og ágætt að fara yfir þær sviðsmyndir sem dregnar voru upp hér í umræðum um fjármálaáætlun á síðastliðnu vori, meira að segja sú sem talin var galin og bjartsýn er einhvers staðar langt frá niðurstöðunni að því leyti að staðan er mun betri. Við vorum gagnrýnd fyrir það hér í þinginu í vor að útfæra ekki í fjármálaáætlun það aðhald sem þyrfti að beita í ríkisfjármálum sem þar var birt á næstu árum. Svar okkar var í raun og veru mjög einfalt: Við ætluðum ekki að útfæra það aðhald og þann samdrátt sem við töldum að grípa þyrfti til til þess að ná markmiðum ríkisfjármála, markmiðum um skuldahlutföll og útgjöld, af því að við ætluðum að vaxa út úr því ástandi sem við vorum komin í. Fjárlagafrumvarpið endurspeglar það fyrst og fremst að það var ekki úr lausu lofti gripið að svara með þeim hætti vegna þess að við erum að vaxa út úr þessu áfalli. Við getum síðan haft allar heimsins skoðanir, og eðlilega eigum við að hafa á því margar skoðanir, hvernig við höfum aukið útgjöld á undanförnum árum og á bls. 127 í fjárlagafrumvarpinu er gerð skýr grein fyrir því hvernig við höfum aukið útgjöld á undanförnum árum til mismunandi málaflokka og sú aukning er veruleg. En til að standa undir þessum auknu útgjöldum þarf kröftugt atvinnulíf og kröftugt efnahagslíf og það er fyrst og fremst það sem við þurfum að gæta að þegar við ræðum fjárlagafrumvarp, þegar við munum á næstu dögum ræða fjármálastefnu til næstu ára o.s.frv., vegna þess að hlutverk ríkisfjármála í efnahags- og peningastefnu í landinu er grundvallarþáttur sem við megum ekki missa sjónar af.

Nú er sá tími kominn að við þurfum að beita ríkisfjármálum af ábyrgð til að styðja við peningastefnuna. Ég nefndi hér áðan minnkandi atvinnuleysi og aukinn kaupmátt. Aukinn kaupmátt þarf að verja með ábyrgri efnahagsstjórn vegna þess að hann er ótrúlega fljótur að glatast öllum þeim sem hann hafa fengið með því að við sýnum óvarkárni í ríkisfjármálum og í því hvernig við höldum á fjármunum ríkissjóðs.

Þetta vildi ég við upphaf fjárlagaumræðunnar aðeins rekja til að setja í samhengi hvert okkar hlutverk er sem förum nú á næstu vikum að fjalla um fjárlagafrumvarpið, þegar því verður vísað til hv. fjárlaganefndar, hvaða hlutverki við gegnum þar. Efnahagslífið þarf áfram að vaxa og efnahagslífið þarf áfram að eflast. Í spám fyrir þetta frumvarp er talað um að árin 2021–2026 muni landsframleiðsla aukast um 20%. Það skiptir gríðarlega miklu máli að það gangi eftir vegna þess að á því byggist það fyrst og fremst að við getum viðhaldið þeim verkefnum og þeim útgjöldum sem við höfum varið fjármunum til á undanförnum árum, til að bæta í nýsköpun og tækni, í rannsóknarsjóði, í heilbrigðiskerfið, í samgöngumál o.s.frv. Ein meginefnahagsráðstöfunin sem gripið var til í einu af þessum fimm fjáraukalagafrumvörpum sem við ræddum á síðasta ári voru auknar fjárfestingar í samgöngumálum og rannsóknarsjóðum og aukin útgjöld til menntamála, við vorum að fjárfesta til lengri tíma og vegna þess að við fjárfestum til lengri tíma, m.a. í innviðum, undirbyggðum við hagvöxt framtíðarinnar. Ef við berum gæfu til að beita ríkisfjármálunum með þeim hætti að við séum að viðhalda því fjárfestingarstigi sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu erum við að byggja traustari stoðir undir efnahagssókn til lengri tíma.

Það verður að sjálfsögðu verkefni hv. fjárlaganefndar að rýna í tölurnar, í skiptingu fjármunanna, í markmiðin með verkefnunum, í markmiðin með útgjöldunum, ekki síður en að rýna það hvar nýta megi fjármuni betur og hvaða verkefni við þurfum til skemmri og lengri tíma að fara að endurskoða hug okkar til, hvort ástæða sé til að fylgja þeim eftir eða hvort tíma þeirra sé lokið eða hvort við þurfum að taka utan um þau með einhverjum öðrum hætti. Þetta er stöðugt viðfangsefni sem aldrei lýkur. Í þessari 1. umr. fjárlaga höldum við á fjárlagafrumvarpi sem mér finnst fyrst og fremst vera vitnisburður um að við höfðum öflugan og traustan fjárhag ríkissjóðs við upphaf skyndilegs áfalls. Það skiptir því höfuðmáli að við höldum þannig á málum ríkissjóðs að hann verði sem fyrst aftur sterkur. Í allri umræðu um bóluefni í samfélagi okkar er kannski rétt að setja umræðuna í það samhengi, en það er besta bóluefnið sem opinber fjármál og efnahagsstjórnin á Íslandi geta fengið til lengri tíma að ríkissjóður komist sem fyrst í sína sterku stöðu því að það er grunnurinn að því að við getum verið viðbúin áföllum sem örugglega munu verða en verða vonandi ekki. Það er líka grunnurinn að því að við getum rekið ábyrga peningastefnu sem tryggir sókn í samfélagi okkar, aukna sókn til bættra lífskjara í landinu okkar.