152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[17:10]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir andsvarið. Ég ætla, eins og ég hef áður sagt í andsvari við hv. þingmann við umræðu um opinber fjármál, hvort sem það er fjármálaáætlun eða fjárlög, bara að segja að ég hef heyrt og þekki áhyggjur hv. þingmanns af stöðu þessa fólks og hef þær sannarlega líka. En hvers vegna gengur okkur ekkert að takast á við þetta verkefni? Hvað er það sem veldur því að við erum enn í þeirri stöðu sem hv. þingmaður er að lýsa? Ég vil aftur á móti segja, og það er það sem ég var að reyna að draga fram í ræðu minni, af því að við fjöllum hér um ræðuna sem ég var að flytja áðan: Fyrst og fremst með sterkum ríkissjóði höfum við tækifæri til að gera þetta en við verðum að komast í að gera þetta. Ég er alveg sammála hv. þingmanni í þeim efnum og það verkefni getur ekki beðið mikið lengur. Hvernig við gerum það er ég ekki tilbúinn til að útfæra við hv. þingmann nú.