152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[17:15]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég get aðeins sagt það sem ég vildi taka utan um: Vegna þess að við höfðum hér aðgerðir með fjármögnun skattgreiðendanna, af því við streymdum fjármunum út í efnahagslífið til að grípa utan um fólk, til að grípa utan um fyrirtæki, til að grípa utan um opinberar stofnanir, til að grípa utan um opinbera starfsmenn, til að takast á við þetta skyndilega efnahagsáfall, höfum við verið að leiða okkur hraðar fram og upp úr þessari skyndilegu kreppu heldur en við hefðum örugglega staðið frammi fyrir ef við hefðum ekkert gert. Ég er ekki í nokkrum einasta vafa um að vegna þess að við gripum til þessara aðgerða er viðspyrnan þetta kröftug. En við þurfum líka að muna að við þurfum að halda áfram að halda þannig á málum að ríkissjóður komist sem fyrst í sterka stöðu aftur til að geta mætt óvæntum áföllum af því við vitum að þau munu koma, við vitum ekki hvenær, og þá verður ríkissjóður að hafa tækin og tólin til þess.