152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[17:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú veit ég að hv. þingmaður er sveitarstjórnarmaður, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, og þekkir vel til sveitarstjórnarmála og þeirra áskorana sem Reykjanesbær hefur þurft að mæta í heimsfaraldrinum. Hv. þingmaður nefndi það að fjórði hver vinnandi maður hefði gengið atvinnulaus á Suðurnesjum um tíma og það gefur augaleið að gefa þarf samfélagi sem glímir við slíkt sérstakan gaum. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi orðið var við það að ríkisstjórnin hafi beint sjónum sínum sérstaklega að Suðurnesjum með fullnægjandi hætti til að mæta þeim áskorunum. Eins og hv. þingmaður kom inn á hefur atvinnuleysi á Suðurnesjum farið úr 25% í 10% þannig að það hefur skánað heilmikið. En það er samt sem áður 10% og var 10% þegar Covid skall á af því að fall WOW hitti Suðurnesjamenn mjög illa fyrir. Á Suðurnesjum glímir fólk við langtímaatvinnuleysi. Langtímaatvinnuleysi fylgja aukaverkanir sem eru afskaplega erfiðar, þær eru félagslegar og þær eru efnahagslegar. Ég vil því í fyrsta lagi spyrja hv. þingmann hvort hann hafi tekið eftir því eða fundið fyrir því að ríkisstjórnin hafi beint sjónum sínum sérstaklega að þessum vanda á Suðurnesjum og hvort hann sjái þess einhver merki að aukinn stuðningur komi fyrir þetta svæði í fjárlagafrumvarpinu sem við ræðum hér.