152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[18:00]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég tók eftir því að hann ræddi um þá áskorun sem felst í því að ætla að klára þetta mikilvæga plagg núna fyrir áramót. Ég hef svipaða upplifun og hv. þingmaður. Ég kom ný inn á þessa löggjafarsamkundu árið 2016 þar sem við þurftum í einum skotgrænum að klára fjárlög vegna þess að hvorki gekk né rak að mynda ríkisstjórn. Þingið þurfti að koma sér saman um fjárlög án þess að hér væri starfandi ríkisstjórn. Það var reyndar mjög áhugaverð upplifun og ég vil meina að Landspítalinn hafi aldrei haft það betra en akkúrat þá þegar það var engin ríkisstjórn til að halda aftur af honum. En það er nú útúrdúr.

Þá var a.m.k. einhver ástæða fyrir því að við kusum að hausti. Það var ástæðan fyrir því að það tók svona langan tíma að koma þinginu af stað og þó að mér hafi fundist ansi lélegt af Panama-stjórninni að bíða í hálft ár með að boða til nýrra kosninga þá var það auðvitað pólitískt klókt hjá þeim að kaupa sér tíma til þess að leyfa reiðinni aðeins að sjatna áður en kæmi til nýrra kosninga. En þetta voru samt kosningar á óvenjulegum tíma vegna þess að stjórnin hafði sprungið og þingið kom seint saman vegna þess að það gekk ekki að mynda ríkisstjórn. Á endanum gáfumst við upp og byrjuðum bara án ríkisstjórnar. Það sama gerðist 2017. Þá vorum við aftur mjög seint á ferðinni og það var einmitt aftur af því að ríkisstjórnin sprakk, þannig að það var alla vega einhver ástæða fyrir því. En í þetta skipti er engin ástæða fyrir því. Þessi ríkisstjórn ákvað einfaldlega að kosið yrði að hausti af því að hún vildi nokkra mánuði eftirlitslausa frá þinginu. Hún ákvað líka að taka sér níu vikur í að endurnýja heitin. Þannig að ég spyr hv. þingmann: Er þetta ekki sjálfskaparvíti hjá ríkisstjórninni? Og hvað finnst hv. þingmanni um það?