152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[18:50]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nefndi sérstaklega einstæða foreldra en við þekkjum það líka að veikindi leiða til fátæktar í íslensku samfélagi, sem er auðvitað hörmulegur dómur um land eins og Ísland þar sem það ættu ekki að vera neinar ástæður til þess að svo sé. Aðeins aftur varðandi einstæða foreldra því að ég held að það sé svo mikilvægt að draga fram hvað er raunverulega verið að tala um þar, einstætt foreldri sem býr við fátækt eða er í þessari stöðu. Ég veit það líka eins og hv. þingmaður nefnir að þetta er ekki stór hópur og Ísland stendur vel í alþjóðlegum samanburði en þess þá heldur að reyna að grípa hann. Þess þá heldur. Mér finnst áhugavert að horfa núna á nýskipaða ríkisstjórn þar sem við erum með félagsmálaráðherra, við erum með heilbrigðisráðherra, við erum með barnamálaráðherra. Við erum með þrjú embætti, þrjá ráðherra sem ættu að vera í þessu máli. Það ætti kannski að vera það jákvæða í þessu en hættan er líka sú að þetta verkefni splundrist og skiptist niður á of marga ráðherra. En stundum er talað með þeim hætti að börn sem búa við þessar aðstæður geti ekki stundað íþróttir til jafns við önnur börn, þau geti ekki stundað tómstundir, klæðaburður þeirra standist ekki samanburð við önnur börn, eða lífsgæði annarra barna öllu heldur. Þeim er neitað um bíó, ferðir, allt það sem við teljum vera hluta af eðlilegu lífi á Íslandi. En það heyrist sjaldnar talað um þann hóp sem eru börn foreldra sem búa við sárafátækt. Þá erum við komin langt umfram þessar breytur. Þá erum við komin að þeim grunnþætti að standa veikar vegna húsnæðis, (Forseti hringir.) standa veikar vegna heilbrigðisþjónustu, standa veikar einfaldlega gagnvart því að geta fætt börnin sín. (Forseti hringir.) Þess vegna eru það mér mikil vonbrigði að heyra það að þingmaðurinn sjái engin jákvæð merki í þessu frumvarpi.