152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[18:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég verð bara að segja það að þrír ráðherrar, tíu ráðherrar — það breytir engu ef viljinn er ekki til staðar. Það er það sem mér finnst furðulegt að skorti vegna þess að við erum ríkt samfélag. Það væri ekkert mál hjá okkur að koma þessu í lag ef vilji væri til staðar. Við vitum að einstæðir foreldrar eru oft stór hluti af þeim hóp sem er í biðröð eftir mat t.d. og við vitum að við erum að eiginlega að setja alla fjölskylduna í áhættuhóp upp á framtíðina vegna þess að þau eru ekki að fá réttan mat. Ég er ekki að setja út á það sem þau fá í matarhjálp en það segir sig sjálft að einstaklingurinn er þannig að hann vill velja sér sinn mat sjálfur og það er ekkert víst að sá matur sem viðkomandi fær gefins henti honum. Við vitum að börn eru með mataróþol og alls konar og við erum að leika okkur, í sjálfu sér má segja að ríkisstjórnin sé að leika sér að framtíð og heilsu fjölskyldna, margra fjölskyldna sem standa einar. Við verðum að átta okkur á að einstæðir foreldrar þurfa að standa undir húsnæði, fæði, klæðum og öllu og eru í sumum tilfellum, mörgum tilfellum, ein að reyna að halda þessu gangandi og reyna að sjá til þess að börnin fái það sem önnur börn fá. En það gengur ekki upp, mun aldrei ganga upp nema við sjáum til þess í eitt skipti fyrir öll að ríkisstjórnin geri eitthvað. Það er okkar hlutverk hérna, við verðum að hamra á því og við verðum að vona. Ég vona heitt og innilega að þau sjái ljósið en miðað við síðustu fjögur ár þá finnst mér það mjög ólíklegt.