152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[20:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Mér finnst áhugaverð þessi umræða um útblásið bákn og útþanda gjaldahlið og þess háttar, sérstaklega í samhengi við ýmiss konar hagfræðikenningar. Hagfræði er dálítið mismunandi og sú hagfræði sem hv. þingmaður nefndi hér er ekki eina hagfræðin sem er í notkun, eða svona pælingar um hagfræði. Við höfum notað ýmiss konar hagfræði í gegnum aldirnar og það hefur sýnt sig að hagfræðikenningar geta verið svolítið lélegar. Við uppfærum hagfræðina alltaf af og til. Nú er t.d. í gildi sú hagfræðikenning að í rauninni sé ríkið að eyða peningum þegar það leggur skatt á eitthvað og búa til peninga í hagkerfið þegar það er með útgjöld. Ég velti bara fyrir mér þessari grunnspurningu: Hvernig vitum við hvort báknið er útþanið og útgjöld of mikil, eins og hv. þingmaður orðaði það nokkurn veginn?