152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[20:35]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að stutta svarið, svo ég byrji á því, sé að raunverulega séu engar skattalækkanir fyrirhugaðar í fyrirsjáanlegri framtíð. Við munum eflaust sjá einhvern slíkan pakka, umræðuna byrja svona á þriðja þingi þessa kjörtímabils og tillögur á fjórða ef það verður ekki allt sprungið á þeim tíma. Ég held að meiningin sé ekki mikil á bak við þær skattalækkanir sem eru nefndar með þessum risafyrirvara sem er einhvers lags „jail free card“, svo að maður noti orð úr borðspilunum, með leyfi forseta. Það verða engar skattalækkanir lagðar til. Einhverjar tilfærslur eflaust en það verður í algerri mýflugumynd er ég algjörlega sannfærður um, því miður, því ég held að við verðum bara systematískt að leita leiða til að draga úr heildarskattlagningu á Íslandi. Hún er býsna há og þá er ég ekki að segja að við þurfum að vera blóðug upp að öxlum og höggva niður hina ýmsu þjónustuliði hins opinbera heldur þurfum við fyrst að fara yfir það hvernig við getum farið betur með peningana. Getum við fengið meira fyrir sama pening eða jafnvel meiri þjónustu fyrir minni pening? Ég nefni bara fráleitt dæmi um gripaflutninga til Svíþjóðar þar sem liðskiptaaðgerðir voru framkvæmdar við þreföldu verði á við það sem var boðið hér í Reykjavík á sama tíma.

Það er augljóst að það að koma í veg fyrir vinstri stjórn var aðallega í nösunum á vinum okkar í Sjálfstæðisflokknum en það sem snýr að lægri sköttum — ég held að þeir hafi raunverulega verið að meina það og þeim þætti það skynsamlegt og nauðsynlegt. En svo hélt það ekki og skipti ekki máli þegar kom að því að tryggja stólana.