152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:34]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra aftur fyrir andsvarið. Mér finnst gaman að heyra að ráðherra ætli að taka þetta mál af metnaði. Mig langar að tæpa aðeins á því sem hann nefndi í fyrra andsvari sínu sem er sannarlega eitthvað sem ég hefði getað farið fjölmörgum orðum um í ræðu minni hefði ég haft meiri tíma og mun eflaust gera einhvern tímann aftur. Það er að það er ekkert sem bendir til þess að ferðum fólks um heiminn fari fækkandi á næstu árum. Þvert á móti er allt sem bendir til þess að fólksflutningar á milli landa muni aukast. Það er ekki bara vegna stríðsátaka eða vegna fátæktar eða annars, það er líka vegna loftslagsbreytinga og alls konar þátta sem við höfum enga stjórn á og skiptir engu máli hvað okkur finnst um. Þess vegna er ekkert vit í öðru en að gera okkur, land og þjóð, í stakk búin til að takast á við það í stað þess að loka augunum fyrir því, loka dyrum og loka gluggum, vegna þess að það gengur ekki. Þetta er ekki tímabundið vandamál. (Forseti hringir.) Þetta er áskorun sem er komin til að vera.