152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[22:06]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum farið um víðan völl í kvöld og ég hlustaði með athygli á orð hv. þingmanns um eldri borgara þar sem hann talaði um stöðu þeirra í samfélaginu, væntingar, virkni í samfélaginu og atvinnuþátttöku. Ég er þeirrar skoðunar að þarna séum við að horfa á viðfangsefni sem snertir í raun og sann virðingu, lífsgæði og hamingju og að það sé samfélaginu og fólkinu sjálfu til góða að það fái að taka þátt í samfélaginu með virkum hætti. En af því að hv. þingmaður hefur setið í fjárlaganefnd og hefur tekið sæti í allsherjarnefnd langaði mig til að spyrja hann út í þessi sjónarmið, um lífsgæðin og virðinguna, virknina í samfélaginu, út frá því fólki sem við ræddum hér saman um fyrr í kvöld, nokkrir þingmenn. Fólki sem er nýlega komið til landsins, fólki á flótta, hælisleitendum, það eru til ólík orð yfir það, en ég spyr út í þessi sömu sjónarmið um þann hóp fólks.