152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var almennt þannig, og það hefur verið rifjað upp hér nokkrum sinnum, að allar góðar tillögur sem við settum fram voru felldar af stjórnarmeirihlutanum, hvaða flokkur sem átti í hlut. Stundum var það þannig, sem er bara gott, að stjórnarmeirihlutinn tók tillögur okkar upp. Kannski er það svo í þessu tilviki að stjórnarmeirihlutinn er að vakna til vitundar um að það er mikilvægt að virkja alla krafta í samfélaginu, hvort sem er hjá hinu opinbera eða hjá einkaaðilum, til að auka þjónustu og fækka fólki á biðlistum. Þetta er rétt, þeir hafa fellt þetta ítrekað og ég vil líka vekja athygli á því að þeir hafa ekki heldur viljað afgreiða tillögu Viðreisnar og Miðflokksins sem veitir Sjúkratryggingum heimild til að semja við einkaaðila þegar kemur að liðskiptum og fleiri þáttum. Þetta hefur því ítrekað verið fellt á mörgum sviðum. Þar fyrir utan samþykkti allur þingheimur, í stóru og mikilvægu máli, niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu. Síðan hefur ríkisstjórnin lítið gert með það mikilvæga mál sem kæmi til móts við mjög erfiðan hóp fólks sem þarf á stuðningi að halda.