152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:16]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegur forseti. Það er mikið ábyrgðarhlutverk að setjast á Alþingi sem alþingismaður, ég tala nú ekki um þegar maður er hv. 63. þingmaður landsins eftir að svo rækilega hrikti í stoðum lýðræðisins. Ég tek þessu hlutverki mínu mjög alvarlega og mun það vonandi verða augljóst í starfi mínu hversu mörg sem árin verða, það fer eftir því hvernig stjórninni gengur. Ég mun verða gagnrýninn á það sem betur má fara en jafnframt talsmaður þess að finna hinn gullna meðalveg í málum, meðalveg sem tryggir að lýðræðið sé virkt og að hagur þjóðarinnar sé hafður að leiðarljósi en ekki hagur fárra vel tengdra aðila. Ég mun einnig vera óhræddur við að benda á slæm vinnubrögð sem fengið hafa að tíðkast innan þessara veggja, bæði í formi eineltis og sálræns ofbeldis. Það er von mín að þingmenn úr öllum flokkum séu tilbúnir að tækla slæmar hefðir sem hafa fengið að viðgangast hér allt of lengi. Sem barnabarn tveggja alþingismanna, sem komu hvor úr sínum enda hins pólitíska litrófs, mun ég fylgja fordæmi þeirra og tryggja gott jafnvægi milli málefnalegrar en mjög harðrar gagnrýni og þess að vinna saman að betri hag lands og þjóðar.

Það er vel við hæfi að eitt fyrsta verk á hverju þingi séu umræður um fjárlög. Fátt stjórnar lífi fólks eins mikið og þær ákvarðanir sem teknar eru í því frumvarpi. Þær stýra því hvaða skatta og gjöld íbúar þessa lands þurfa að greiða. Þær stýra dreifingu útgjalda til hinna ýmsu málaflokka. Það er því mikið ábyrgðarhlutverk fyrir okkur þingmenn að skoða fjárlagafrumvarpið ítarlega og átta okkur vel á því hvaða breytingar eru að gerast og hvernig þær breytingar munu hafa áhrif á líf fólksins í landinu.

Þá kemur að fyrstu eineltisvinnubrögðunum sem tíðkast hér á hinu háa Alþingi. Frumvarp til fjárlaga og fylgirit þess sem eru jú næstum eitt þúsund síður — þrátt fyrir að tveir mánuðir séu liðnir frá kosningum sem ríkisstjórnin ákvað að halda að hausti er það þó fyrst fyrir þremur dögum að við í stjórnarandstöðunni fengum að líta fjárlagafrumvarpið augum nú þegar einungis fáar vikur eru þar til það þarf að vera búið að samþykkja það. Við þingmenn þurfum að setja okkur inn í alla þá þætti sem þar koma fram. Sem betur fer hef ég nokkurra áratuga reynslu í því að vinna við stjórnun neyðaraðgerða á hamfarasvæðum. Við slíkar aðstæður þarf maður að venjast því að þurfa að kynna sér hluti mjög hratt og vinna með takmarkaðar upplýsingar en samt að taka ákvarðanir sem hafa mikil áhrif á líf fólks. Sem betur fer hef ég líka sjóaða samstarfsmenn í flokknum mínum eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sem með setu sinni í fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili hefur öðlast skilning á því kraðaki sem fjárlagafrumvörp og fylgiskjöl þeirra eru. Kennslustund frá honum sparaði mér marga daga í að reyna að læra á hina flóknu framsetningu sem notuð er. Ég vorkenni hverjum þeim íbúa þessa lands sem nýtur ekki slíkrar leiðsagnar við að skilja þetta mikilvæga frumvarp og hvernig það hefur áhrif á líf hans.

Mér fannst líka mjög áhugavert að sjá talað um stafræna umbyltingu í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar, hæstv. ráðherrar, virðast nota þetta orð sem nýjasta tískuorðið sitt. En þegar kom að fjárlagafrumvarpinu var eina stafræna umbyltingin sú að við fengum pdf-sniðmát af því einum og hálfum degi áður en við fengum hina prentuðu útgáfu. Það er sannarlega mikil bylting frá prentuðu útgáfunni að geta flett upp hvar og hversu oft ákveðin hugtök koma fyrir í stað þess að þurfa að skima þessar eitt þúsund síður eða svo. Fyrir tæpu ári auglýsti fjármálaráðuneytið stöðu stafræns leiðtoga sem átti að leiða stafræna umbyltingu innan ráðuneytisins og var ráðið í þá stöðu á vormánuðum. Það er því veik von mín að sú ráðning muni leiða til þess að við þingmenn getum á mun gagnvirkari hátt flett fram og til baka í hinum ýmsu liðum frumvarpsins og þannig áttað okkur betur á því hvað er að breytast og hvernig. Áður en hæstv. fjármálaráðherra, sem sennilega er að fá sér hádegismat, kemur og bendir mér á hina einföldu gagnvirku Microsoft Power BI lausn, sem er á vef ráðuneytisins, langar mig að benda honum á að hún er álíka gagnleg og töflurnar í pdf-skjalinu. Hafandi starfað í hinum stafræna heimi viðskipta í aldarfjórðung þá er það vægast sagt sorglegt að sjá hvernig úrelt framsetning á pappír er nýtt til þess að gera okkur í stjórnarandstöðunni erfiðara fyrir að tryggja að hagsmunum íbúa þessa lands sé borgið.

Hæstv. fjármálaráðherra talaði fjálglega í andsvari í gær um það hversu frábært það væri að geta nýtt gögn hins opinbera til að taka betri ákvarðanir. Það er hins vegar ekki nægilegt að hann sjálfur og starfsfólk hans hafi aðgengi að slíkum gögnum heldur þarf að opna þessi gögn og gera þau aðgengileg öllum, þar á meðal okkur alþingismönnum. Það er von mín að hæstv. fjármálaráðherra hætti slíkum eineltistilburðum og ein leið er betri vinnubrögð og virkilega að fara í stafræna umbyltingu á því hvernig fjárlagafrumvörp framtíðarinnar verða lögð fram. Þá mun ég kannski ekki, í umræðum um næstu fjárlög, koma með athugasemdir og ábendingar sem í raun eiga sér einfaldar útskýringar sem var ekki hægt að koma inn á það textasnið sem notað er til framsetningar á þessum mikilvægu lögum.

Snúum okkur að innihaldi frumvarpsins þó að ég hefði eflaust getað talað í nokkra klukkutíma í viðbót um formið og vinnubrögðin við að keyra þetta í gegn á það stuttum tíma að við alþingismenn getum ekki sinnt almennilega því lögboðna hlutverki okkar að hafa eftirlit með áætlunum og gerðum framkvæmdarvaldsins. Byrjum á að skoða stuðning við nýsköpun en það er málasvið sem ég þekki mjög vel eftir að hafa unnið og stutt við hana hér á landi og erlendis í yfir tvo áratugi. Það er svo sannarlega ánægjulegt að sjá heildarútgjöld til þessa málaflokks hækka á milli ára, fara úr 28,8 milljörðum kr. í 29,8 milljarða. Miðað við það að orðið nýsköpun kom fram 20 sinnum í nýjum stjórnarsáttmála — já, við fengum hann líka á pdf-formi — þá eru það sannarlega vonbrigði að sú hækkun sem þarna er sé ekki meiri. Við sem höfum starfað við nýsköpun vitum að betur má ef duga skal. Það er nefnilega þannig að fjárfesting ríkisins í nýsköpun skilar sér margfalt til baka í ríkiskassann. Með öflugum stuðningi við nýsköpun er verið að tryggja innkomu í ríkiskassa framtíðarinnar og þar með byggja fleiri og sterkari stoðir undir íslenskt hagkerfi. Með öflugum stuðningi við nýsköpun má einnig tryggja byggðaþróun utan höfuðborgarsvæðisins og takast þannig á við afleiðingar einkavinavæðingar sjávarútvegsins sem hefur leitt til þess að minni pláss úti á landi hafa tapað atvinnutækifærunum.

En skoðum líka í hvað þetta fjármagn til nýsköpunar er að fara. Um 3,8 milljarðar fara í Rannsóknasjóð sem er svipuð upphæð og í síðustu fjárlögum. Það er sannarlega ánægjulegt að ríkið sé að fjárfesta í grunnrannsóknum enda hefur það sýnt sig víða um heim að slíkar fjárfestingar skila sér í öflugra nýsköpunarsamfélagi. Það er hins vegar sorglegt að sjá að útgjöld til Rannsóknasjóðs eiga að dragast verulega saman árið 2024, á sama tíma og fjárframlög til Rannsóknarmiðstöðvar Íslands, vegna alþjóðlegrar samstarfsáætlunar á sviði vísinda, verða einnig skorin niður um tæp 60%. Að sama skapi er ánægjulegt að sjá aukið framlag til Innviðasjóðs sem styður við fjármögnun á dýrum rannsóknartækjum og uppbyggingu rannsóknarinnviða — hækkar örlítið á næsta ári en því miður er enn og aftur dregið verulega saman í áætlunum fyrir 2024. Það er mikill misskilningur hjá ríkisstjórn að halda að ekki verði þörf á stöðugri endurnýjun rannsóknartækja á komandi árum, sér í lagi á tímum örra breytinga sem við lifum nú á.

Það er líka athyglisvert að sjá að þrátt fyrir fagrar yfirlýsingar, um aukinn fókus á matvæli og nýsköpun á því sviði, lækka framlög til Matvælasjóðs milli ára og enn og aftur má sjá að árið 2024 er áætlað að skera framlög til hans niður um tæpar 250 milljónir. Ef við horfum svo á þann sjóð sem veitir hvað mest af styrkjum til nýsköpunarfyrirtækja, Tækniþróunarsjóð, þá fær hann 100 milljónir aukalega á þessu ári sem að sjálfsögðu er ánægjulegt en allt of lítil aukning. Það er líka mjög sorglegt að sjá að rétt eins og með önnur fjárframlög til nýsköpunar á að skera mikið niður til Tækniþróunarsjóðs árið 2024.

Það er svo sannarlega ánægjulegt að sjá aukin framlög til þessara sjóða á þessu ári þótt ég hefði gjarnan viljað sjá þau mun hærri. Sér í lagi hefði ég viljað sjá aukið fjármagn til þessara sjóða eyrnamerkt til þess að styðja við og auka framlög til þess stuðningskerfis sem nauðsynlegt er svo að það fjármagn sem sjóðir veita til nýsköpunarfyrirtækja nýtist sem best. Ef ekki væri vegna sterks grasrótar- og sjálfboðaliðastarfs væri nýsköpunarumhverfið á Íslandi í molum. Það er einnig athyglisvert að nýsköpun á öðrum sviðum er oft aðeins í orði en ekki á borði. Það er frekar fyndið, a.m.k. að mínu mati, að sjá að búið er að uppfæra ýmis kaflaheiti innan fjárlaganna og bæta við orðinu nýsköpun. En svo þegar þú skoðar hvað liggur undir, línurnar sem eru þar undir og útgjöldin, þá er það ekki til neinnar nýsköpunar. Það er von mín að hæstv. ráðherrar þessara mála, sem því miður eru ekki hér, lyfti því grettistaki að gera þar bragarbót. Við innan þingsins, sem höfum reynslu á þessu sviði, bjóðum að sjálfsögðu fram aðstoð okkar við að byggja upp öfluga nýsköpun á sem flestum sviðum.

En hvert fer þá restin af því fjármagni sem er eyrnamerkt nýsköpun? Jú, tveir stærstu flokkarnir sem fjármagn til nýsköpunar fer í eru 5,7 milljarðar sem greiddir eru til rammaáætlunar ESB, um menntun, rannsóknir og tækniþróun, og svo 10,4 milljarðar sem fara í endurgreiðslu á þróunar- og rannsóknarkostnaði nýsköpunarfyrirtækja. Skoðum fyrst þessi útgjöld til rammaáætlunar ESB. Já, þarna er settur inn einn af þeim kostnaðarliðum sem féll á Ísland við inngönguna í EES. Hluti af þessari upphæð kemur reyndar til baka í formi styrkja til rannsókna og nýsköpunar og njóta íslenskir háskólar og nýsköpunarfyrirtæki góðs af því. Það sorglega er hins vegar að stuðningur ríkisins til háskólans og nýsköpunarfyrirtækja, til að sækja þessa styrki, er ekki nógu mikill og þar af leiðandi erum við ekki að fá eins mikið fjármagn úr þessum sjóðum og við gætum. Þarna er líka auðvelt að gera gangskör í því að tryggja að við fáum meira til baka úr þessum sjóðum en við borgum í þá.

Svo er það endurgreiðslan til nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar. Sá mikli vöxtur sem hefur verið á þessum lið er sannarlega af hinu góða en mér skilst að upphæðin fyrir það ár sem er að líða sé rúmlega tvöföld sú upphæð sem kom þarna inn og var úthlutað 2020. Það er ánægjulegt að sjá að gert er ráð fyrir svipaðri upphæð á komandi ári. Ég er reyndar að vonast til þess að nýsköpunarfyrirtækin sæki um meira því þetta er ein auðveldasta leiðin til að styðja við bakið á góðri nýsköpun. Enn og aftur — já, þið getið ykkur til — á hins vegar að skera þessar fjárhæðir niður fyrir 2023 og 2024. Þetta á að fara úr rúmum 10 milljörðum niður í 5,5 milljarða. Það er svo sannarlega von mín að horft sé til hækkunar fyrir bæði þessi ár við áætlunina fyrir 2022. Ég get alla vega lofað fyrrum félögum mínum úr nýsköpunarsamfélaginu að ég mun berjast ötullega fyrir því bæði innan atvinnuveganefndar og hér í þingsal.

Virðulegi forseti. Svarið við öllum þessum kvörtunum tengdum nýsköpun verður eflaust allt á þann veg að benda á hinn nýja sjóð ráðuneytisins, Kríu, sem ætlað er að styðja við bakið á svokölluðum vísisjóðum sem er þýðing á enska heitinu Venture Capital Funds. Það er sannarlega ánægjulegt að slíkur sjóður sé stofnaður og settur á fót hér á landi enda hefur umhverfi vísifjárfestinga hér á landi verið mjög brothætt um áratugaskeið. Það er einnig ánægjulegt að sjá framlög til sjóðsins hækka um 500 milljónir á ári til frambúðar en þau okkar sem hafa verið í ólgusjó nýsköpunar og frumkvöðlafjárfestinga um áratugaskeið vita hins vegar að þær upphæðir sem hér um ræðir eru smámunir í samanburði við þær upphæðir sem frumkvöðlafyrirtæki þurfa. Það er nefnilega ekki óalgengt að eitt skref fjárfestingar hjá nýsköpunarfyrirtæki sé á bilinu 200–500 milljónir. Þannig duga þessir 2 milljarðar sem settir eru inn árlega stutt þegar kemur að raunverulegum alvörufjárfestingum.

Það er einnig mjög sorglegt að sjá að nær ekkert nýtt fjármagn er eyrnamerkt því að styðja við útrás íslenskra nýsköpunarfyrirtækja á erlendri grund, útrás sem getur sótt erlenda vísifjárfestingu sem er mun stærri en þær sem íslenskir vísisjóðir eða ríkið geta lagt fram. Sannleikurinn er sá að fjármagn til alþjóðlegs samstarfs og kynninga dugar varla fyrir einu stöðugildi. Að sama skapi virðist vera niðurskurður í fjármagni til norræns samstarfs á þessu sviði sem nýst hefur vel í útrás íslenskra fyrirtækja og hef ég sjálfur verið farsæll notandi þess samstarfs. Það er nefnilega þannig að nýsköpun þekkir engin landamæri og útrás er lykillinn að velgengni nýsköpunar á Íslandi. Það er því sorglegt að sjá að sú sýn sem fyrrverandi ríkisstjórn birti í framtíðarsýninni um utanríkisþjónustu til framtíðar árið 2017 hefur ekki þokast áfram að neinu ráði. Enn sitja nýsköpunarfyrirtæki á Íslandi við þá stöðu að ekki er til nægt fjármagn til þess að veita alvörustuðning við útrás á erlendri grund. Viðskiptafulltrúar Íslands á erlendri grund hafa því miður aðallega verið nýttir til að styðja við útrás þeirra aðila sem fjármagna kosningabaráttu ríkisstjórnarflokkanna, nánar tiltekið í útrás á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar. Viðskiptafulltrúar okkar hafa þrátt fyrir það sem betur fer reynt að sinna nýsköpunarfyrirtækjum sem eru í útrás eftir sinni bestu getu en því miður hefur það oft verið gert á þeim tímum sem viðskiptafulltrúarnir ættu í raun að vera að sinna fjölskyldu sinni og erum við í nýsköpunargeiranum þakklát fyrir fórnir þeirra og fjölskyldna þeirra.

Í gegnum norræna samstarfið hafa nýsköpunarfyrirtæki m.a. nýtt sér norrænu frumkvöðlahúsin, eða Nordic Innovation House, sem í dag eru staðsett í Kísildalnum, New York, Singapúr, Hong Kong og Tókíó. Í gegnum þessi frumkvöðlahús geta nýsköpunarfyrirtæki fengið aðstöðu og stuðning við útrás sína á þessum svæðum. Sjálfur nýtti ég mér þessa aðstöðu þegar ég var búsettur í Kísildal. Þá nýtti ég sambönd mín inn í nýsköpunarsamfélagið á Íslandi til að hvetja íslensk nýsköpunarfyrirtæki til að nýta sér þessa frábæru þjónustu. En því miður höfðu fulltrúar Íslands í stjórn þessa verkefnis ekki kynnt þau sem skyldi á Íslandi. Leiddi þessi kynning mín til þess að stóraukin nýting varð á þessari þjónustu. Það sló mig einnig, varðandi þátttöku Íslands í þessu verkefni, að Ísland eitt Norðurlanda hafði enga fasta fulltrúa starfandi innan þessara frumkvöðlahúsa. Öll hin Norðurlöndin eru með fasta starfsmenn allt frá einum og upp í 15 í Kísildalnum einum sér. Þessir föstu starfsmenn byggðu upp tengslanet innan nýsköpunargeirans á svæðinu, auk þess að byggja upp öflugt tengslanet við aðila úr vísisjóðum sem þar eru staðsettir. Það að geta opnað dyrnar fyrir frumkvöðla inn í þetta stóra tengslanet gerði nýsköpunarfyrirtækjum þessara landa mögulegt að sækja milljarða dollara til þessara aðila. Auk þess sinntu þessir föstu starfsmenn því að halda hina ýmsu hraðla og námskeið fyrir nýsköpunarfyrirtæki frá Norðurlöndum og er ég sannfærður um að fjárfesting í þessu starfsfólki skilaði sér tugfalt til baka inn í hagkerfi Norðurlandanna. Þarna má Ísland ekki vera eftirbátur og er sú tillaga sem kom fram í fyrrnefndri skýrslu um utanríkismál til framtíðar, að byggja upp stöðu viðskiptafulltrúa Íslands á vesturströnd Bandaríkjanna, með sérstaka áherslu á útrás tæknifyrirtækja, því mikilvæg. Við gætum jafnvel fylgt fordæmi frænda okkar Dana og annarra landa og skipað sérstakan tæknisendiherra með aðsetur þarna.

Já, betur má ef duga skal. Það er einskær von mín að hæstv. ráðherra nýsköpunar, eða þingmenn úr hennar flokki, sem láta sig nýsköpun varða, komi hér upp og lýsi því yfir að þau séu tilbúin til þess að gera þær breytingar sem þörf er á til þess að rækta nýsköpunarsamfélagið á Íslandi og byggja þar með trausta og varanlega nýja stoð við íslenskt hagkerfi.

En snúum okkur því að því málasviði sem þessi ríkisstjórn segir að sé eitt það mikilvægasta á þessu kjörtímabili, loftslagsmálunum. Svo mikilvægt að það var sett í hendurnar á þeim flokki sem fékk falleinkunn í loftslagsmálum samkvæmt Sólinni, kvarða ungra umhverfissinna um stefnu flokka í loftslagsmálum. Svo mikilvægt að nær engin aukning er í útgjaldaliðum tengdum loftslagsmálum að frátöldum útgjöldum til landgræðslu og skógræktar. Svo mikilvægt að fjármagn til nýsköpunar á sviði umhverfismála er skorið niður milli ára. Það er nefnilega auðvelt að tala fjálglega í stefnuyfirlýsingu um grænar fjárfestingar og nýsköpun en sýna svo engan lit þegar kemur að því að fjármagna þá hluti. Minnir það mig dálítið á þann farsa sem gerðist á síðasta kjörtímabili þegar samþykkt var að sálfræðiþjónusta yrði niðurgreidd af ríkinu en svo var enginn peningur eyrnamerktur í að gera þá von fólks, fjölda fólks sem ekki hafði efni á sálfræðiþjónustu, að alvöru. Kannski er þetta aðferð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til að gefa kjósendum og stofnendum Vinstri grænna veika von um að fá alvöruloftslagsaðgerðir á þessu kjörtímabili. Ég er ansi hræddur um að það sé sama vonin og þeir sem þurftu á sálfræðiaðstoð að halda báru í brjósti. Er ég því ansi hræddur um að biðlistar eftir sálfræðiaðstoð muni aukast þegar kjósendur VG átta sig á því hvernig þeir hafa verið plataðir.

Nýsköpun í loftslagsmálum er að mestu í gegnum loftslagssjóð, sjóð sem er svo hlægilega lítill að einstaka verkefni tengd nýsköpun í loftslagsmálum, eins og Carbfix, hafa sótt fjármögnun sem er sexföld sú upphæð sem ríkisstjórnin ætlar að leggja inn í loftslagssjóð árlega á næstu árum. Árleg upphæð sem á þessu ári dregst úr 170 milljónum niður í 100 milljónir á ári þar sem ríkisstjórnin ætlar að auka grænar fjárfestingar í orði en ekki á borði.

Rétt eins og hv. alþingismaður á undan mér á ég um það bil 80% eftir af ræðunni en það er allt í lagi, við höfum nægan tíma fram að jólum. En nýsköpun og stafræn umbylting — þrátt fyrir að það sé mikið áhugasvið mitt — mun ekki skila þeim umbótum í lífi fólks sem það þarfnast strax. Jú, ég skal viðurkenna að það sparar mér smátíma að geta farið inn á Heilsuveru og pantað mér tíma hjá heimilislækni eins og hæstv. fjármálaráðherra talaði fjálglega um. En vandamálið er að ég þarf enn að bíða í marga mánuði eftir því að fá þennan tíma hjá heimilislækninum, þótt ég losni við þá hræðslu mína að lyfta upp tóli og hringja í einhvern. Stafræna umbyltingin er vinsælt orð hjá hæstv. fjármálaráðherra og kollegum hans í ríkisstjórn þegar kemur að því að leysa vandamál sem ríkisstjórnin hefur engin svör við. En eins og ég benti á í upphafi ræðu minnar virðist stafræna umbyltingin ekki einu sinni hafa náð inn í hans eigið ráðuneyti. Það er nefnilega ekki nóg að gera umsóknir rafrænar ef það að veita þjónustu tekur enn jafn langan tíma og biðlistar eru enn jafnlangir. Það þarf því að ráðast á hið raunverulega vandamál sem er innan veggja hins opinbera. Stafrænar umbyltingar eru nefnilega ekki neinar töfralausnir og sannleikurinn er sá að 70% af stafrænum umbyltingarverkefnum skila ekki þeim árangri sem ætlast er til.

Virðulegi forseti. Það er eins og ég sagði í upphafi mikill heiður að setjast á Alþingi. Ég get lofað virðulegum forseta því að ég mun tjá mig á gagnrýninn en uppbyggilegan hátt um þau mál sem brenna á mér og fólki í landinu. Það er von mín að eitthvað af því sem ég segi hér í þessum stól síist inn í huga fulltrúa stjórnarflokkanna og endi í versta falli sem frumvarp eða stefna sem þeir mega með góðfúslegu leyfi stela og endurnýta sem sína eigin.