152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:12]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, við þurfum að skoða orsakirnar. Enginn leggur á flótta að ástæðulausu og við verðum að skilja hvers vegna flóttamannavandinn er af þeirri stærð sem hann er í dag. Það eru átök og stríð, jafnvel átök sem Ísland hefur stutt. Það er loftslagsvandinn án nokkurs vafa. Það er líka þessi gríðarlegi ójöfnuður á milli landa í heiminum og innan landa sem veldur því að fólk hefur engin tækifæri önnur, eða sér engin tækifæri önnur, en að leggja á flótta. Við þurfum að horfast djúpt í augu við okkur sjálf í þessum málaflokki og hætta að líta svo á að það að fólk reyni að leita hælis á Íslandi sé einhver vandi sem við ætlum að senda frá okkur í hvert skipti og skrifa síðan á reikning þróunarsamvinnu. Það er eiginlega engin leið til að lýsa því hvað það er ósvífin aðgerð. Það er eiginlega engin leið til að lýsa því að hér séum við, í okkar ríka landi, með allt sem við höfum að bjóða, í hverri einustu viku að vísa á brott viðkvæmum hópum, konum og börnum, og svo flokkum við það sem þróunarsamvinnu.