152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:42]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, ég hef komið að slíkum breytingum í mínum störfum sem sveitarstjórnarmaður. Ég sit mitt fjórða kjörtímabil í sveitarstjórn þannig að ég er búinn að vera í sveitarstjórn í 16 ár, hef tekið þátt í sveitarstjórnarmálum frá 1998 og hef komið að ýmsu á þeim vettvangi. En auðvitað er það smávaxið í samanburði við það sem verið er að gera hér. Ég held að þegar ríkisstjórn er mynduð þegar árið er að verða búið, og fjárlög þurfa að liggja fyrir fyrir árslok, sé óráð að gera þetta með þessum hætti. Það er auðvitað hægt að búa til málefnasamning sem felur í sér að á döfinni sé að breyta fyrirkomulagi Stjórnarráðsins á kjörtímabilinu. Þá getur átt sér stað það sem hv. þingmaður nefndi, að fara í greiningar og skoða málin, eins og við gerum á sveitarstjórnarstiginu. Við ráðum til okkar sérfræðinga sem hjálpa okkur við að skoða það skipulag sem við erum að vinna eftir og hvort það þjóni þeim hagsmunum sem við erum að reyna að vinna að. En við þurfum ekkert endilega að gera þetta í byrjun. Sveitarstjórnir taka yfirleitt við í maí þannig að það gefst ráðrúm áður en fjárhagsáætlun næsta árs þarf að liggja fyrir. Mér finnst það því vera algert óráð að koma með slíkar breytingar á síðustu metrum ársins og segja svo að kostnaðurinn sé óljós. Mér finnst það bara algert rugl.