152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[15:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er bara eins og gengur og gerist. Ég var að fjalla um það að ég væri sammála hæstv. fjármálaráðherra um það að ráðstöfunartekjur séu alfa og omega í þessu. En vandinn sem við glímum við hefur alltaf verið hvernig ráðstöfunartekjur dreifast á milli mismunandi tekjuhópa. Við höfum séð það í faraldrinum að fjármagnstekjur hafa hækkað mjög mikið sem þýðir að ráðstöfunartekjur þeirra tekjuhærri hafa verið að hækka mjög mikið. Það dregur auðvitað meðaltalsráðstöfunartekjurnar upp. Maður spyr út í þetta í fjárlaganefnd: Já, þetta eru ráðstöfunartekjur, frábært, en hvaða áhrif hefur það t.d. á þá sem eru með lægstu launin, eru með lífeyri almannatrygginga? Það fást engin svör.

Við sjáum að ríkisstjórnin er að leiðrétta vanáætlun sína frá síðasta ári. Gert var ráð fyrir 3,6% verðlagsþróun en hún varð 4,4%, varð sem sagt 0,8% hærri en miðað var við og nú á að leiðrétta það. Vandinn er sá að launaþróun hefur verið 7,6% á undanförnu ári þannig að ef við leiðréttum laun lífeyrisþega miðað við verðlagsþróun þá erum við að hækka þau minna en launaþróun hefur verið. Þar af leiðandi er augljóst að kjarabæturnar, ráðstöfunartekjurnar, aukast minna þar en hjá öðrum. Ofan á það voru gerðar krónutöluuppfærslur í lífskjarasamningunum og ef þú breytir þeim yfir í prósentutölur fyrir þá lægst launuðu er það miklu lægri krónutala sem hefur neikvæð áhrif á ráðstöfunartekjurnar ef miðað er við aðra. Já, eins og hæstv. ráðherra segir, ráðstöfunartekjur skipta máli en þá þurfum við líka að horfa á hvar þær eru og hvernig þær birtast fyrir mismunandi hópa sem hefur aftur áhrif inn í þessa umræðu um skattskrið og hvernig skattar leggjast líka mismunandi á mismunandi hópa. Þetta er tvöfalt vandamál.