152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[15:51]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Það er alltaf gaman og lærdómsríkt að heyra af reynslu fólks. Nú hefur hv. þingmaður setið hér á þingi lengur en ég og eflaust heyrt í mörgum öryrkjum sem lifa hreinlega við sárafátækt hér á landi. Þegar það fólk heyrir afsakanirnar sem ríkisstjórnin og stjórnmálamenn veita fyrir því af hverju ekkert er gert í þeirra málum get ég ímyndað mér að hv. alþingismaður finni fyrir mikilli reiði í þjóðfélaginu þegar kemur að þessum málum.

Nú er talað um að það þurfi að breyta kerfinu og mig langar að heyra frá hv. þingmanni: Hvaða atriði eru það sem ríkisstjórnin ætti að hafa í huga þegar hún er að byggja upp þetta nýja kerfi sem hún notar endalaust sem afsökun? Hvað þurfa þau að passa svo við lendum ekki í sömu fátæktargildrunum og sama ruglinu og við erum í í dag?