152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[15:53]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, ég er búinn að vera í fjögur ár á þingi, en áður var ég í 24–25 ár í kerfinu. Ég var í Sjálfsbjörg, landssambandi hreyfihamlaðra. Ég var í kjarahópi Öryrkjabandalagsins, ég var í stjórn Öryrkjabandalagsins á tímabili og ég var í verkefni um Evrópuár gegn fátækt og félagslegri einangrun. Þannig að ég veit nákvæmlega hvernig hlutirnir voru á þeim tíma. Það er ekkert flókið að beita þessu og búa til rosalega flott kerfi. Gerum það eina sem gildir, númer 1, 2 og 3, að hafa það svo einfalt að allir skilji það. Það er númer 1, 2 og 3.

En það sem þarf aðallega að gera og er eina leiðin til að breyta kerfinu er að tala við þá sem nota kerfið, láta þá vera með, hlusta á þá. Leyfa þeim að benda á hvernig best er að breyta kerfinu. Þetta er eins og við myndum segja, bara núna í dag, að við ætluðum að breyta hér á Alþingi, að breyta nefndum og alls konar hlutum og fundarstjórn og alls konar, og við myndum ákveða að við hefðum ekki hundsvit á þessu og ætluðum bara að láta öryrkjana gera þetta. Heldurðu að ríkisstjórninni myndi detta það í hug? Ekki í eina mínútu. En þeim dettur samt í hug að þvinga kerfi sem þeir eru búnir að búa til upp á öryrkjana og verða alveg steinhissa þegar öryrkjarnir segja: Nei, við viljum ekki þetta kerfi. Þeir töluðu ekki við þá. Það er kominn tími á að ríkisstjórnin sjái til þess að taka upp alvörusamtal við Öryrkjabandalagið, við þá sem þurfa að nýta þetta kerfi, og hlusta og fara eftir því.