152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn, þarna hitti hún naglann akkúrat á höfuðið. Það hefur alls ekki verið gert og það er eiginlega stórfurðulegt ef við hugsum út í það: Á hverja hefur Covid mest áhrif? Viðkvæma hópa, hópa sem eru með undirliggjandi sjúkdóma, fólk sem er með lungnasjúkdóma. Þetta fólk er búið að vera lokað inni, ekki bara öryrkjar heldur líka eldra fólkið okkar. Það hefur annaðhvort þurft að treysta á nána ættingja til að ná í mat og lyf eða fá sent heim, sem er dýrt. En ég spyr mig hversu margir einstaklingar í þessum hópum komast ekki einu sinni til þess að fá mat, geta ekki farið í biðröð og beðið um mat, maturinn er ekki keyrður heim frá hjálparstofnunum, þannig að þau hafi enga möguleika. Ég spurði þess vegna hérna um daginn hversu margir standa frammi fyrir því að geta ekki valið á milli lýsisflösku eða maltdósar í ísskápnum, heldur sé bara ekki neitt.