152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mig langar að velta því upp hvort það sé fundarfært hjá okkur í dag eða hvort forseti þurfi að gera hlé á þessum fundi vegna þess að stjórnarliðar virðast allir hafa öðrum hnöppum að hneppa en að ræða grundvöll fjárlaga ríkisins næsta árið. Hér erum við búin að ræða bandorminn í tvo klukkutíma. Eini fulltrúi stjórnarflokkanna sem hefur tekið til máls er hæstv. fjármálaráðherra. Er staðan kannski sú að ógnarjafnvægið milli stjórnarflokkanna felur í sér að lyklavöldunum fylgi friðhelgi, að flokkarnir tjái sig ekki hver í annars máli? Hvort heldur sem er, frú forseti, þá óska ég liðsinnis forseta við að vinna bug á þessu vegna þess að það er ólýðræðislegt og það er ólíðandi og það er vanvirðing við þingið að hér sé bara stjórnarandstaðan að hjala hvert ofan í annað.