152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Í 1. umr. kemur framkvæmdarvaldið með mál til þingsins. Það er þessi meiri hluti sem hefur tekið sér völd til að halda dagskrá þingsins í ákveðinni gíslingu, stjórnar því hvaða mál koma á dagskrá og hvernig umræður eru, hvernig mál eru afgreidd úr nefndum og þess háttar. Ég myndi halda að þau myndu vilja fylgja alla vega málum úr hlaði en það er ekki raunin. Við búum við það að stjórnarþingmenn afsala sér einfaldlega völdum til ráðherra sinna og treysta því bara sem þeir leggja fram þrátt fyrir að þeir komi hér og veifi: Heyrðu, hér er vinna sem við ætlum að laga. Fáum við engar skoðanir stjórnarþingmanna á því? Er þetta bara skoðanalaust stimpilverkefni sem við erum að glíma við hérna? Manni líður stundum þannig í þingvinnunni. Núna er kominn tími, það þarf að klára og stimpla og öll sú vinna sem búið er að vinna fram að því er í rauninni bara ákveðið formsatriði sem þurfti að ganga í gegnum, þurfti bara að þola, í bið einhvern veginn þar til talinn er hentugur tími til að klára. Er þetta svoleiðis?