152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:19]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem fleiri hafa sagt hérna og ekki síst orð hv. þm. Gísla Rafns Ólafssonar, sem er, líkt og ég, nýr á þessu þingi. Svörin hafa líka komið mér á óvart frá hv. þingmönnum meiri hlutans, sem hingað hafa komið í pontu og lýst því að þau séu að hlusta. Samt virðast þau ekki sjá tilefni til að taka til máls. Ég er ekki í fjárlaganefnd en hef mikinn áhuga á þessari umræðu. Ég hefði haldið að hér ætti að fara fram umræða þar sem við heyrum báðar hliðar, ekki bara framsögu og síðan það hvað minni hluti þingsins er ægilega óánægður með allt saman og meiri hlutinn hefur ekkert um það að segja. Ég er mjög forvitin um þau svör og það sem meiri hluti þingsins hefur um það að segja sem hefur komið hér fram í dag og lýsi því yfir að ég sakna þeirrar þátttöku í þessari umræðu.