152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér gríðarlega mikilvægt mál sem er í tengslum við fjárlög og hvernig staðið verður að efnahagsmálum næstu fjögur ár. Ríkisstjórnin, þar með talið hæstv. fjármálaráðherra, hefur talað um að þetta sé eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna næstu árin; að stuðla að sjálfbærum og öruggum ríkisfjármálum, efnahagsmálum.

Öðruvísi mér áður brá, að það sé aðeins einn úr hópi stjórnarliða, sem eru með þingmeirihluta upp á 38 þingmenn, sem tekur þátt í umræðunni og er margra manna maki, hæstv. ráðherra. En ég hefði haldið að áhuginn á umræðunni væri meiri en raun ber vitni hjá þingmönnum sem hafa tjáð sig mjög mikið um mikilvægi þess að lækka gjöld, lækka álögur eða lýsa yfir áhyggjum af þeim málum, þegar við ræðum hér frumvarp sem hækkar álögur og gjöld á heimili, lítil og stærri fyrirtæki í landinu. Ég hefði haldið að áhuginn væri meiri í þessu brýna máli sem við ræðum hér. Þetta eru ekki bara einhver aukreitismál heldur risamál sem við erum að fjalla um, fjárlög, fylgifrumvörpin o.fl. Þannig að þetta undrar mig svolítið í ljósi allrar umræðu, en ekki síst í kosningabaráttunni.