152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:22]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Já, það er gott og blessað að hlusta. En við erum jú í málstofu og hún hlýtur að skiljast sú upplifun að talað sé fyrir daufum eyrum þegar við fáum ekki einu sinni eitt einasta andsvar. Ekki einn stjórnarþingmaður er á mælendaskrá að undanskildum flutningsmanninum, hæstv. ráðherra, ekki eitt andsvar frá stjórnarþingmanni. Það er varla að þeir sjáist hér í salnum og í húsi. Það er eitt að hlusta á okkur með öðru eyranu og annað að taka þátt í lýðræðislegri umræðu um það hvernig við ætlum að haga samfélagi okkar, hverjar fyrirætlanirnar þessarar nýju ríkisstjórnar eru. Þau eru nýkomin inn á lokasprettinum fyrir jól með skjal sem menn segja að sé ekki alveg tilbúið og hafa ekkert um það að segja hvað sé að bætast við, hver sé sýn þessa meiri hluta. Upp á hvað ætlið þið að bjóða okkur? Um hvað hafið þið eiginlega að tala? Hvað hafið þið eiginlega að gera, hv. þingmenn, fyrst þið eruð ekki hér?