152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:26]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mig langar aðeins að bregðast við orðum hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur hér áðan. Hún nefndi það að meginþungi vinnunnar, aðalvinnan, í tengslum við fjárlög, færi fram í nefndunum, í fjárlaganefnd til að mynda. Rétt eins og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson sagði hér áðan hefur stjórnarmeirihlutinn komið því þannig fyrir að þau hafa nýtt ýtrasta styrk sinn, þrátt fyrir að ekki sé venja um slíkt, að manni skilst, til að vera þar með fleiri fulltrúa og aukinn meiri hluta miðað við það sem minni hlutinn hefur. Þar sem meginþungi starfsins er hefur stjórnarandstaðan því ekki tækifæri til að koma sjónarmiðum jafn sterkt á framfæri og hér í þingsal. Ég tek því undir þau orð þingmanna sem hér hafa talað að það er undrunarefni að stjórnarþingmenn skuli líta á sig sem einhvern stimpil og stimpilpúða fyrir það sem kemur frá ráðherrunum. Hér í þingsal þarf að eiga sér stað mun dínamískari, innihaldsríkari og dýpri umræða um fjárlög. Til þess að svo megi verða væri fínt að fá þingmenn stjórnarmeirihlutans til að taka þátt í umræðunni.