152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Hann er þingmaður sem er að verða svolítið hokinn af reynslu í fjárlaganefnd, m.a. í tengslum við bandorminn. Ég kem úr tveimur ólíkum áttum. Annars vegar langar mig til að spyrja um áfengisgjaldið. Það hækkar í samræmi við það verðlagsviðmið sem frumvarpið ber með sér þótt það sé lægra, sem er jákvætt, heldur en verðbætur raunverulega eru. En mig langar að spyrja hvort hann telji það réttlætanlegt í ljósi þess í fyrsta lagi að tekjur af áfengisgjaldi voru meiri núna á þessu ári en í langan tíma, m.a. af mikilli innanlandsneyslu út af faraldrinum. Síðan er hitt sem ég velti fyrir mér og spurningin þá til hv. þingmanns: Telur hann réttlætanlegt að næsta ár fengi áfengisgjaldið bara kælingu í ljósi þess að þetta kemur ekki hvað síst niður á litlum fyrirtækjum, smáum rekstraraðilum, í veitingahúsageiranum og líka ferðaþjónustu? Hvort hann sæi fyrir sér að það hefði mátt koma með þann stuðning inn í næsta ár með því að frysta áfengisgjaldið, a.m.k. það ár.

Síðan er annað, ég sé að ég á hálfa mínútu eftir og ætla að nýta hana. Mig langar aðeins að fara yfir kolefnisgjöldin. Mér finnst vanta alla umræðu um inntakið á kolefnisgjöldum. Stefnan hjá okkur í Viðreisn er að við eigum, ekki spurning, að nota hvata, græna hvata og gjöld svo lengi sem það eru ekki viðbótarálögur á allt kerfið sem slíkt, frekar að fara í það að breyta kerfinu. Finnst hv. þingmanni vanta inn í þetta plagg í hvað nákvæmlega gjöldin eigi að fara? Hvar gæti ég þá t.d. leitað að því, því að ég fæ ekki svör við neinum af þeim spurningum hér af hálfu þingmanna meirihlutans? (Forseti hringir.) Hvar gæti ég hugsanlega leitað mér upplýsinga um það í hvað nákvæmlega kolefnisgjaldið á að fara og hvar sé ég pólitíska stefnumörkun um kolefnisgjaldið?